Flugvél á vegum Icelandair gat ekki lent á flugvellinum á Las Palmas á Kanaríeyjum í dag vegna mikillar rigningar á svæðinu og þurfti hún að lenda á flugvellinum á Tenerife.
Þetta segir Guðni Sigurðsson upplýsingafulltrúi Icelandair.
Hann segir að eftir stutt stopp á Tenerife sé vélin komin aftur í loftið og flýgur nú til Las Palmas. Það þurfti þó að aflýsa fluginu frá Las Palmas til Keflavíkur vegna hvíldartíma áhafnar.
Nýtt flug hefur verið sett upp síðdegis á morgun til að koma farþegunum heim. Búið er að láta farþegana vita og geta þeir bókað sér hótel í nótt á kostnað flugfélagsins.
Úrhellingsrigning á Gran Canaria og Tenerife hefur valdið usla síðustu daga. Flóð hafa myndast víðast hvar og hefur sjö ströndum í bænum Telde verið lokað til að tryggja öryggi almennings.
Ferðamenn eru varaðir við því að ferðast á staði þar sem spáð er mikilli rigningu.