Áætlað er að sparnaður með sameiningum ríkisstofnana geti numið 13-19 milljörðum á komandi árum. Stofna ætti samhæfingarhóp um sameiningu stofnana sem ætti að reikna hagræði við sameiningu ríkisstofnana miðað við reynslu fyrri ára.
Þetta er meðal niðurstaðna sem starfshópur um hagræðingu í ríkisrekstri lagði til og kynntar voru áðan, en þar er gert ráðfyrir að sparnaður geti verið um 71 milljarður á fimma ára tímabili, frá 2026 til 2030.
Fram kemur í tillögunum að megináherslan eigi að vera á skilvirkan rekstur og aukinn slagkraft og því þurfi þungi umræðunnar um sameingingar að vera þar frekar en að horft sé í krónur og aura. Hópurinn birti því ekki áætlaðan sparnað á hverja tillögu um sameiningu, en lét mat á heildarábata allra tillagna duga.
Horft er til þess að hægt sé að fara í allar þessar aðgerðir á árunum 2026 og 2027, fyrir utan sameiningu héraðsdómstóla sem yrði ekki fyrr en árið 2028 samkvæmt tillögum hópsins.
Bent er á að í dag eru 154 stofnanir ríkisins, en þar af eru 68 stofnanir með færri en 50 stöðugildi. Telur hópurinn mikið óhagræði felast í slíku og að litlar stofnanir skorti slagkraft sem fylgi stærri stofnunum. Tekið er fram að jafnan leiði sameiningar til þess að draga störf inn á höfuðborgarsvæðið, en með því að ráðst í fleiri en eina sameiningu sé hægt með heildstæðum hætti að dreifa höfuðstöðvum og starfsstöðvum um landið.
Þjónustumiðstöð ríkisins: Stofnun sem verði til með sameiningu sýslumannsembættanna. Bent er á að vaxandi hluti erinda sem embættunum berast í dag komi inn í miðlæg upplýsingakerfi og séu afgreidd án landfræðilegrar nálægðar. Þá mætti sameina Þjóðskrá Íslands við þessa Þjónustumiðstöð ríkisins og skoða kosti þess að Útlendingastofnun verði þar jafnframt undir. Samhliða sé tilefni til að aðrar stjórnsýslustofnanir færi einstaklingsþjónustu til nýrrar stofnunar
Fækkun lögregluembætta: Lagt til að fækka lögregluembættum og að skynsamlegt sé að byrja að sameina lögregluembætti á suðvesturhorninu. Það feli í sér hagræðingu í stjórnunarlagi, innkaupum og ýmiss konar stoðþjónustu.
Héraðsdómstólar sameinaðir í einn: Lagt til að einn héraðsdómstóll verði stofnaður í stað þeirra átta sem nú eru, en að starfsstöðvar haldist áfram á öllum stöðum.
Sameiginleg stjórnsýsla fyrir framhaldsskóla: Framhaldsskólar sæki þjónustu til sameiginlegrar stjórnsýslustofnunar en hver og einn skóli haldi faglegu sjálfstæði og nafni. Kæmi fram í fækkun millistjórnenda, einföldunar á rekstri og að skólarnir sinni þannig fyrst og fremst kjarnahlutverki sínu. Með því fái þeir sterkara bakland varðandi rekstur, upplýsingatæknimál og mannauðsmál.
Háskólasamstæður: Háskóli Íslands verði að háskólasamstæðu, en innan þeirrar samstæðu væru einnig Háskólinn á Hólum og Landbúnaðarháskóli Íslands ásamt tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræðum að Keldum og Landsbókasafn Íslands. Undir aðra háskólasamstæðu myndu Háskólinn á Akureyri og Háskólinn á Bifröst sameinast.
Markaðseftirlit og neytendavernd: Sameina Samkeppniseftirlitið, Fjarskiptastofu, Neytendastofu og Fjölmiðlanefnd í eina stofnun. Ný stofnun myndi jafnframt hafa eftirlitshlutverk með opinberum innkaupum.
TR og SÍ: Fýsileiki sameiningar Tryggingastofnunar og Sjúkratrygginga Íslands verði skoðaður.
Stofnun borgaralegra réttinda: Sameina Persónuvernd, Jafnréttisstofu, Umboðsmann barna, Landskjörstjórn og Mannréttindastofnun í eina stofnun og minnka yfirbyggingu.
Fækka nefndum: Lagt til að ráðuneyti leggi mat á hvaða ráð og nefndir megi leggja niður, en sem dæmi er nefnt að leggja mætti niður yfirfasteignamatsnefnd og færa verkefni hennar til yfirskattanefndar. Þá er lagt til að Stjórnarráðið komi upp „Húsi nefndanna“ sem veiti úrskurðar- og kærunefndum sameiginlegt húsnæði og utanumhald.
Samrekstur í Stjórnarráði: Lagt til að auka samrekstur ráðuneyta. Meðal annars færa mannauðsstjórnun, skjalamál, upplýsingamál, almennan rekstur og stoðhlutverk sem hvert ráðuneyti sér um í dag til Umbru. Þá er lagt til að fasteignaumsýsla ráðuneyta færist til FSRE og rekstur bifreiða og mannahald bílstjóra færist til Ríkislögreglustjóra.
Safnastofnun: Lagt til að sameina Gljúfrastein, Listasafn Einars Jónssonar, Listasafn Íslands og Þjóðminjasafn í eina Safnastofnun. Ná þar með fram bættri nýtingu húsnæðis, fjármagns og mannauðs.
Haftengdar stofnanir: Skoða sameiningu Fiskistofu, Hafrannsóknarstofnunar, Verðlagsstofu skiptaverðs og Fiskræktarsjóðs. Samhliða kannað hvort Landhelgisgæslan taki við fiskveiðieftirliti. Einhver verkefni Samgöngustofu og Vegagerðar gætu farið undir nýja stofnun.
Náttúruverndarstofnun: Eftir sameinginu hluta Umhverfisstofnunar sem sneri að náttúruvernd og Vatnajökulsþjóðgarðar í Núttuverndarstofnun um síðustu áramót ern ú horft til að sameina nýju stofnunina við Minjastofnun og Þjóðgarðinn á Þingvöllum.
Listamiðstöð Íslands: Í stað sex kynningarmiðstöðva lista, auk fyrirhugaðrar barnamenningarmiðstöðvar, sem allar eru sjálfstætt rekar, er lagt til að sameina þær í eina stofnun. Eru flestar miðstöðvarnar með innan við 10 stöðugildi í dag með tilheyrandi kostnaði við yfirstjórn og stoðþjónustu. Þær kynningarmiðstöðvar sem eru starfræktar í dag eru; Kvikmyndamiðstöð Íslands, Miðstöð íslenskra bókmennta, Myndlistamiðstöð, Tónlistarmiðstöð, Sviðslistamiðstöð Íslands, Hönnunarmiðstöð og List fyrir alla.
Sameining sjóða: Skoða sameiningu sjóða á vegum ráðuneyta. Slíkt ætti að skila lægri umsýslukostnaði og betri yfirsýn og minnka hættu á misnotkun. Bent er á að umsýslukostnaður sjóða árið 2022 hafi verið 840 milljónir og ef takist að lækka hann um 20-40% feli það í sér 170-340 milljónir árlega. Nefnd eru dæmi um sjóði sem mætti sameina: Lóa – nýsköpunarstyrkir fyrir landsbyggðina og Uppbyggingasjóði landshluta. Menntarannsóknasjóð og Rannsóknasjóð. Matvælarannsóknasjóð og Tækniþróunarsjóð. Jafnréttissjóð, Framkvæmdasjóð jafnréttismála og Framkvæmdasjóð hinsegin málefna.
Þá eru bent á að þrátt fyrir þessar tillögur yrðu áfram til stofnanir sem eru með færri en 50 stöðugildi. Lagt er til að unnið verði að fækkun þeirra þannig að stöðugildi hverrar stofnunar verði ekki undir 50. Meðal stofnana sem þetta á við um eru Náttúruhamfaratryggingar Íslands, Umboðsmaður skuldara, Gæða- og eftirlitsstofnun velferðamála og Skipulagsstofnun.