Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, segist aðspurður að sjálfsögðu vera til í samtal um að ríkið komi með frekari hætti til móts við flugrekstraraðila og íbúa á Vestfjörðum með það fyrir augum að tryggja framtíð innanlandsflugs til og frá Ísafirði.
Icelandair tilkynnti í gær að félagið hyggðist leggja af flug um Ísafjörð að óbreyttu eftir sumarið 2026. Ákvörðun sem tekin er á rekstrarforsendum í kjölfar þess að Bombardier Dash 200-vélar þær sem flogið hafa á Ísafjörð verða ekki lengur samkeppnishæfar vegna breytinga á grænlenskum flugvöllum.
Bogi segir í samtali við mbl.is að framundan séu fundir bæði með sveitarstjórnarmönnum á Vestfjörðum og innviðaráðherra vegna málsins.
„Þetta verður bara að koma í ljós og er kannski ekki í okkar höndum en þetta er byggðamál og það skiptir miklu máli fyrir landsbyggðina að hafa öflugar flugsamgöngur.“
Bogi segir innanlandsflugið mjög mikilvægan þátt í starfsemi flugfélagins og framtíðarstefnu. Þó segir hann að ef aðrir geti flogið á Ísafjörð með hagkvæmari hætti en Icelandair og nýtt flota sinn betur í það sé það hið besta mál.
„Við erum með ákveðið „setup“ á okkar flota og það eru breytingar í umhverfinu sem við þurfum að bregðast við og því miður er þetta niðurstaðan út úr því.“
Spurður með hvaða hætti ríkið gæti komið til móts við flugrekstraraðila og hversu miklu þyrfti að kosta til segist Bogi sjá fyrir sér að flugið yrði boðið út eins og aðrar flugleiðir sem séu niðurgreiddar.
„Það er mikilvægt að slíkt útboð eigi sér stað með miklum fyrirvara og helst sé til lengri tíma vegna þess að það krefst ákveðinnar fjárfestingar flugrekstrarðaila, hvort sem það eru við eða aðrir.
Það er ekki bara í flugflota, það er á jörðu niðri líka, flugafgreiðsla og þess háttar og því er mikilvægt að vandað sé vel til slíks og horft til lengri tíma,“ segir Bogi.