„Aldrei staðið gegn hagræðingu í ríkisrekstri“

Kolbrún Halldórsdóttir, formaður BHM.
Kolbrún Halldórsdóttir, formaður BHM. mbl.is/Hari

Kolbrún Halldórsdóttir, formaður BHM, segir að samtökin muni ekki skorast undan áframhaldandi samtali með málefnalegum rökum við ríkisstjórnina um hagræðingu í ríkisrekstri. Hún segist hins vegar ósátt með hugmyndir um að aðvörunarskylda verði fjarlægð úr starfsmannalögum fyrir opinbera starfsmenn.

Sextíu hagræðingartillögur sem kynntar voru á blaðamannafundi stjórnvalda í gær sem eiga að spara ríkissjóði 71 milljarð króna á árunum 2026 til 2030.

Um tíu þúsund sparnaðartillögur bárust stjórnvöldum frá almenningi, ráðuneytum og ríkisstofnunum.

Aðvörunarskylda skuli haldast í starfsmannalögum

Í samtali við mbl.is tekur Kolbrún fram að tillögurnar sextíu séu auðvitað samantekt á þeim gífurlega fjölda tillagna sem voru sendar í samráðsgáttina á sínum tíma, flestar þeirra frá almenningi.

Þá eigi tillögurnar eftir að fara í rýni hjá ríkisstjórninni.

Hún segir BHM styðja það af heilum hug að hagræðingin snúi að lokunum glufa í skattkerfinu og að auðlindagjöld séu endurskoðuð.

Hún segist hins vegar ekki hrifin af þeirri hagræðingartillögu að aðvörunarskylda verði fjarlægð úr starfsmannalögunum.

Ísland eigi að samræma við Norðurlöndin

Það sé heimilt að segja fólki upp í opinbera geiranum ef málefnalegar ástæður eru að baki, svo sem skipulagsbreytingar eða niðurlagning starfa.

„Ef það varðar hins vegar starfsmanninn sjálfan og hann er ekki talinn vera að standa sig í starfi að þá gildir þessi aðvörunar-, eða áminningarskylda. Þá er fólki gefið færi á að bæta sig í einhvern tiltekinn tíma og ef það gengur ekki þá er náttúrulega fólk látið fara,“ segir Kolbrún.

„Skyldan er í raun sú að það sé ekki hægt að segja fólki upp af geðþótta.“

Segir Kolbrún að reglur um aðvaranir eða áminningu gildi yfir allan vinnumarkað á Norðurlöndunum og að eðlilegra sé að Ísland samræmi sig við Norðurlöndin hvað það varði frekar en að fella niður regluna.

Tilbúin í frekara samtal um tillögurnar

Að öðru leyti sé BHM tilbúið í frekara samtal við ríkisstjórnina um tillögurnar.

„Við erum bara tilbúin í þetta samtal um þær breytingar sem þarf að gera af því að BHM hefur aldrei staðið gegn hagræðingu í ríkisrekstri.

Við höfum meira að segja viljað leggja þeim lið við að finna leiðir til að auka tekjur ríkisins til þess að geta staðið undir velferðarkerfi sem við erum sátt við,“ segir Kolbrún að lokum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert