Anna Kristín Arngrímsdóttir leikkona er látin 76 ára að aldri. Anna fæddist 16. júlí 1948 á Böggvisstöðum í Svarfaðardal. Foreldrar hennar voru Kristjana Margrét Sigurpálsdóttir og Arngrímur Stefánsson.
Frá þessu greina aðstandendur Önnu Kristínar í tilkynningu.
Anna ólst upp á Dalvík en flutti suður til Reykjavíkur og hóf nám í leiklist í Leiklistarskóla Leikfélags Reykjavíkur eftir landspróf árið 1965. Þaðan útskrifaðist hún árið 1968. Leiklistarferill hennar hófst áður en hún útskrifaðist þegar hún lék í sjónvarpsleikritinu Romm handa Rósalind eftir Jökul Jakobsson.
Eftir námið í leiklistarskólanum lék hún hjá Leikfélagi Reykjavíkur til ársins 1973 þegar hún réðst til Þjóðleikhússins en þar starfaði hún til ársins 2011.
Anna Kristín tók þátt í fjölda leiksýninga á ferlinum. Þar má nefna Ímyndunarveikina, Með vífið í lúkunum, Amadeus, Vesalingana, Náttbólið, Lé konung, Stór og smár, Silfurtunglið, Oresteia Æskýlosar, Mávinn og Kæru Jelenu svo nokkur verk séu nefnd.
Af verkum Þjóðleikhússins utan Þjóðleikhússins má nefna Master Class - María Calas á sviði Íslensku óperunnar, Ferjan í Borgarleikhúsinu, Róðarí og Ég lifi enn í Tjarnarbíói.
Á leikferlinum lék hún í meira en hundrað útvarpsverkum auk kvikmynda- og sjónvarpsverkefna.
Anna Kristín var tilnefnd til menningarverðlauna DV og hlaut Stefaníustjakann fyrir störf sín í leiklist.
Sambýlismaður Önnu Kristínar er Úlfar Þormóðsson. Hún lætur eftir sig þrjú börn, þau Garðar Svavar Gíslason, Brynju Valdísi Gísladóttur og Matthildi Önnu Gísladóttur.