Dæmi eru um það að tekjur sem skila sér til sveitarfélaga frá orkumannvirkjum séu minni en sú skerðing á framlögum frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga sem fylgir iðulega í kjölfarið á auknum tekjum. Sveitarfélög verða því jafnvel fyrir fjárhagslegu tjóni af völdum þess að orkumannvirki eru reist á landi þeirra.
Sylvía Vilhjálmsdóttir, verkefnastjóri hjá KPMG, hélt kynningu um dreifingu tekna frá vindorkuverum á málþingi um stöðu vindorku í dag.
„Algeng spurning sem við fáum frá sveitarfélögum er um það hversu mikið tekjur þeirra frá Jöfnunarsjóði myndu skerðast. Mikilvægt er að skoða hvort að þessar nýju tekjur myndu dekka skerðinguna og jafnvel fara eitthvað umfram,“ sagði Sylvía á málþinginu fyrr í dag.
Haraldur Þór Jónsson, oddviti í Skeiða- og Gnúpverjahreppi segir að til að mynda muni Rangárþing ytra að öllum líkindum verða fyrir meiri skerðingu úr Jöfnunarsjóði en samsvarar fasteignagjöldunum sem vindorkuverið Vaðölduver mun skila.
„Við í sveitarfélaginu lögðum fram mjög ítarleg gögn sem voru reiknuð út af KPMG árið 2023 og þar sýndum við samspil þessara þátta í okkar sveitarfélagi, í sumum tilfellum erum við í beinu tapi en í öðrum tilfellum í örlitlum ávinningi en raunverulegi ávinningur af þessari miklu orkuframleiðslu var ekki að skila sér til okkar í núverandi skattaumhverfi,“ sagði Haraldur í samtali við mbl.is.
Haraldur bendir á að orkumannvirki séu undanþegin lögum um fasteignaskatta ef frá eru talin stöðvarhúsin sjálf. Ný ríkisstjórn hyggst þó leggja fram frumvarp í haust til þess að leiðrétta þetta að sögn Haraldar.
„Ef þessi undanþága verður afnumin mun það leiða til þess að fleiri sveitarfélög verði sjálfstæð úti á landi og munu jafnvel verða óháð jöfnunarsjóði. Sveitarfélögin munu þá geta byggt upp sterka innviði og skapað samkeppnishæf búsetuskilyrði. Þetta mun einnig skapa þennan hvata sem að skortir til þess að samfélög sameinist um það að byggð verði upp aukin orkuframleiðsla til þess að bæta lífsgæði í nærsamfélaginu.“
Haraldur segir að þrátt fyrir að hinar ýmsu virkjanir hafi skaðleg áhrif á sveitarfélagið þá skili tekjurnar sér ekki til Skeiða- og Gnúpverjahrepps.
„Búrfellslundur (nú Vaðölduver) er á sveitarfélagsmörkunum og við verðum sannarlega fyrir áhrifum virkjunarinnar en við fáum engar tekjur. Hvammsvirkjun þar sem verið er að virkja vatnsafl sem liggur að okkar sveitarfélagi veitir okkur engar tekjur vegna þess að stöðvarhúsið er í Rangárþingi ytra og það sama gildir um Holtavirkjun. Þetta eru gífurlegar framkvæmdir sem hafa gífurleg áhrif og við fáum engar tekjur af þessu, þetta getur ekki verið eins og það er.“