Dregið verður úr umsvifum Ríkisútvarpsins á samkeppnismarkaði í síðasta lagi fyrir árslok 2027, að sögn Loga Más Einarssonar, menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra.
Þetta kom fram í svari ráðherrans við fyrirspurn Diljár Mistar Einarsdóttur, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, á Alþingi í dag þar sem hún óskaði eftir svörum um hvort ráðherrann hyggist bregðast við aukinni auglýsingasölu Rúv þrátt fyrir markmið um minni umsvif á auglýsingamarkaði samkvæmt þjónustusamningi sem undirritaður var í upphafi síðasta árs.
Segir meðal annars í samningnum að minnka skuli umsvif Ríkisútvarpsins á samkeppnismarkaði, t.d. með frekari takmörkunum á birtingu viðskiptaboða og/eða með því að breyta eðli og umfangi auglýsingasölu.
Sagði Logi einnig að unnið væri að stefnumótun á málefnasviði fjölmiðla í ráðuneytinu, með það að markmiði að fjölmiðlastefna og aðgerðaáætlun í málefnum fjölmiðla verði lögð fram á haustþingi 2025.
Endurskoðun á starfsemi Ríkisútvarpsins verður hluti af þeirri stefnumótun.