„Engar kryddpíur banna það“

Sigríður Á. Andersen vísaði til nýja borgarstjórnarmeirihlutans sem „kryddpíanna“ eins …
Sigríður Á. Andersen vísaði til nýja borgarstjórnarmeirihlutans sem „kryddpíanna“ eins og þær hafa áður verið nefndar í fjölmiðlum. Minnti Sigríður um leið á að Kryddpíurnar (e. Spice Girls) hefðu verið „ákaflega vinsæl stúlknahljómsveit, skemmtileg og frumleg.“ Samsett mynd/AFP/mbl.is/María/Eyþór

Sigríður Á. Andersen, þingmaður Miðflokksins, gagnrýndi nýjan borgarstjórnarmeirihluta Reykjavíkur á þingi í dag, en þar gerði hún að umtalsefni ákvörðun borgarinnar um að heimila Alvotech ekki að byggja leikskóla í borginni.

Greint var frá því í gær að borgarstjórnarmeirihlutinn hygðist ekki veita Alvotech leyfi til þess að byggja leikskóla sem myndi þjóna starfsfólki fyrirtækisins.

„Nýjasta fréttin er sú, frá því í morgun, að þessi nýi borgarstjórnarmeirihluti, allur skipaður konum, sem er leiddur af konum, ætlar að banna fólki að byggja leikskóla, banna að byggja leikskóla. Ég hef þó þær fréttir fyrir borgarstjórn Reykjavíkur, þennan borgarstjórnarmeirihluta, að það bannar auðvitað enginn neinum að byggja leikskóla eða reka leikskóla. Hér er sem betur fer í gildi stjórnarskrá, þessi gamla góða — ég vek athygli á því: þessi gamla góða — sem enn þá stendur vörð um atvinnufrelsi manna og jafnræði,“ sagði Sigríður.

Hún bætti við að ef einhver hefði áhuga á því að byggja og reka leikskóla „munu engar kryddpíur í borgarstjórn Reykjavíkur banna það.“ Þá velti Sigríður vöngum yfir því hvernig það geti borgarstjórnarmeirihlutanum til hugar að það sé til heilla fyrir Reykvíkinga að taka ekki á leikskólamálunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert