Tryggingarfélaginu Sjóvá ber að greiða reiðhjólakappa bætur úr ábyrgðartryggingu bifreiðareiganda vegna líkamstjóns sem reiðhjólakappinn varð fyrir er hann rakst utan í bifreiðina.
Hæstiréttur komst að þessari niðurstöðu í dag.
Slysið átti sér stað árið 2020. Málavextir voru þeir að reiðhjólakappinn var að hjóla eftir Elliðavatnsveg þegar hann féll af hjóli sínu. Eftir það rann hann eða kastaðist eftir veginum og rakst utan í bifreið áður en hann stöðvaðist í vegkanti. Byggði reiðhjólakappinn á því að af þessari ástæðu hafi líkamstjón hans hlotist af notkun bifreiðarinnar.
Ágreiningur aðila laut að því hvort tjón vegna slyss sem reiðhjólakappinn varð fyrir hafi hlotist af notkun ökutækis í skilningi laga um ökutækjatryggingar og væri bótaskylt úr ábyrgðartryggingu bifreiðarinnar sem tryggð var hjá Sjóvá.
Hæstiréttur féllst ekki á að aðstæður hafi verið með þeim hætti að reiðhjólakappinn hafi í umrætt sinn verið að afstýra árekstri eða annarri yfirvofandi hættu af völdum bifreiðarinnar með þeim afleiðingum að hann féll af hjólinu. Var því lagt til grundvallar að meginorsök þess að hann féll af hjólinu hafi verið hraði hans, staðsetning á vegi og slæmar aðstæður til hjólreiða af því tagi sem hann stundaði í umrætt sinn.
Á hinn bóginn lagði Hæstiréttur til grundvallar að líkamstjón reiðhjólakappans hefði komið til þegar hann rann eftir veginum og lenti á bifreiðinni sem var á hreyfingu. Af þessum ástæðum var litið svo á að tjón hans hefði hlotist af hættueiginleikum bifreiðarinnar og þar með notkun ökutækis.
Landsréttur hafði komist að þeirri niðurstöðu, í ljósi framburðar ökumanns og farþega, að miða ætti við að bifreiðin hafi verið á mjög lítilli ferð þegar reiðhjólakappinn lenti á henni. Hefði þáttur bifreiðarinnar í tjóninu verið áþekkastur því þegar hjólað væri á kyrrstæða bifreið.
Í greinargerð reiðhjólakappans til Hæstaréttar var því hins vegar haldið fram að afar huglægt væri hvað fælist í „mjög lítilli ferð“ bifreiðar. Þannig mætti vel hugsa sér að hún hafi verið á 25 km hraða á klukkustund þegar hann skall á henni þrátt fyrir að vera á mjög lítilli ferð í huga ökumanns og farþega.
Hæstiréttur hafnaði forsendu Landsréttar að atvikum í málinu yrði jafnað til þess að bifreiðin hafi verið kyrrstæð.
Segir dómurinn að það verði að leggja til grundvallar að hættueiginleikar bifreiðar séu jafnan fyrir hendi þegar hún er á hreyfingu fyrir eigin vélarafli og gildi þá einu þótt hún sé einungis á mjög hægum hraða. Því var fallist á að líkamstjón reiðhjólakappans hafi hlotist af hættueiginleikum bifreiðarinnar og þar með notkun ökutækis í skilningi laga um ökutækjatryggingar.
Taldi rétturinn að reiðhjólakappinn hafi hagað hjólreiðum sínum ógætilega með hliðsjón af aðstæðum og þeim búnaði sem notast var við. Hins vegar var ekki fallist á með Sjóvá að hann hafi valdið tjóni sínu af ásetningi eða stórkostlegu gáleysi þannig að skilyrðum laga um ökutækjatryggingar væri fullnægt til niðurfellingar eða skerðingar bótaréttar.