Hlynnt hagræðingu en ekki viss með sameiningu

Helga Þórisdóttir er forstjóri Persónuverndar og formaður Félags forstöðumanna ríkisstofnana.
Helga Þórisdóttir er forstjóri Persónuverndar og formaður Félags forstöðumanna ríkisstofnana. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Hagræðingaráform eru bara alltaf af hinu góða og við fögnum því að það sé verið að leita leiða til þess að hafa opinberan rekstur eins hagkvæman og unnt er,“ segir Helga Þórisdóttir, forstjóri Persónuverndar, um hagræðingartillögur ríkisstjórnarinnar.  Hún setur þó spurningarmerki við sameiningu eigin stofnunar við aðrar, líkt og hagræðingarhópurinn lagði til.

Helga er jafnframt formaður Félags forstöðumanna ríkisstofnana (FFR).

Sextíu hagræðingartillögur sem kynntar voru á blaðamannafundi stjórnvalda í gær sem eiga að spara ríkissjóði 71 milljarð króna á árunum 2026 til 2030.

Um tíu þúsund sparnaðartillögur bárust stjórnvöldum frá almenningi, ráðuneytum og ríkisstofnunum.

Eiga að vanda til verka og tryggja samtal

„Við höfum alltaf eiginlega bara kallað eftir því að þetta sé gert í þéttu samtali við forstöðumenn,“ segir Helga.

Segir hún það vera númer eitt, tvö og þrjú að ríkisstjórnin muni nú vanda til verka og tryggja samtal við forstöðumennina þegar farið verður í hagræðingaraðgerðir.

„Ég held að á þessu stigi sé bara um að gera að skoða áfram hvað fólk er með í huga og mæta þessu af opnum hug.“

Sjálfstæð Stofnun borgaralegra réttinda

Í einni hagræðingartillögunni segir að stefna skuli að því að setja á fót sjálfstæða Stofnun borgaralegra réttinda með sameiningu Persónuverndar, Jafnréttisstofu, Umboðsmanns barna, Landskjörstjórnar og Mannréttindastofnunar.

Segir að með sameiningu sé unnt að hagræða með minni yfirbyggingu og yrði um leið til hagkvæmari rekstrareining með aukinn sveigjanleika til að sinna verkefnum sínum og efla faglegt starf sitt.

Þurfa að vera vissir um að þetta standist lög

Hvernig líst þér á þessa tillögu?

„Já, þarna þarf bara að huga að gildandi lögum. Þeir sem skoða þetta þurfa bara að skoða þetta aðeins betur,“ segir Helga, sem eins og fyrr segir er forstjóri Persónuverndar.

Nefnir að engin persónuverndarstofnun innan Evrópu sé með svo víðfeðmt hlutverk innandyra.

„Það er gert ráð fyrir sjálfstæði persónuverndarstofnanna einmitt til þess að hafa eftirlit með öðrum. Þannig þetta er bara eitt af því sem þyrfti að skoða.“

Ertu hrifinn af tillögunni eða er þetta eitthvað sem þú myndir vilja skoða nánar af því að þú vilt ekki sjá þetta gerast?

„Eins og ég segi, þeir sem leggja fram tillögurnar þurfa náttúrulega að vera vissir um að þetta standist lög og samkvæmt lögum í dag þá þarf hvert ríki EES að vera með persónuverndarstofnun og hún hefur eftirlit með öðrum stofnunum. Það er spurning hvaða aukin verkefni er hægt að setja á hana. Það þarf bara að skoðast innan marka laganna.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert