Hólmfríður tilnefnd til Blaðamannaverðlauna

Hólmfríður María Ragnhildardóttir.
Hólmfríður María Ragnhildardóttir. mbl.is/María

Dómnefnd Blaðamannaverðlaunanna hefur tilkynnt um þau sem eru tilnefnd til Blaðamannaverðlauna ársins 2024. Hólmfríður María Ragnhildardóttir, blaðamaður á Morgunblaðinu og mbl.is, er tilnefnd til blaðamannaverðlauna ársins fyrir umfjöllun um skólakerfi í vanda. 

Fram kemur í tilkynningu frá Blaðamannafélagi Íslands að verðlaunaafhending fari fram í Sykursal í Grósku, miðvikudaginn 12. mars kl. 17.

Verðlaun eru veitt í fjórum flokkum og þrennt tilnefnt í hverjum flokki. Hér að neðan er rökstuðningur dómnefndar fyrir tilnefningunum.

Umfjöllun ársins 2024

Berghildur Erla Bernharðsdóttir, fréttastofu Stöðvar 2, Vísis og Bylgjunnar. Fyrir sjónvarpsþáttaröðina Vistheimilin. Rannsóknarvinna blaðamannsins skín í gegn í ítarlegum og vönduðum þáttum þar sem viðmælendur stíga fram og ræða þungbæra lífsreynslu, margir hverjir í fyrsta sinn. Fjölmargar aðrar heimildir eru dregnar fram og settar í samhengi. Umfjöllunarefni sem erfitt er að gera myndræn skil en það er leyst á bæði hugmyndaríkan og áhrifamikinn hátt.

Guðrún Hulda Pálsdóttir, Bændablaðinu. Fyrir umfjöllun um einokun á íslenskum markaði með koltvísýring sem er nauðsynlegur í ylrækt. Umfjöllunin varpar ljósi á það hvernig einokunin hefur hamlandi áhrif á ylrækt á Íslandi og hvernig markaðsráðandi fyrirtæki hefur notfært sér aðstöðu sína á vafasaman hátt. Umfjöllunin er vel framsett og skrifuð af þekkingu um tiltölulega sérhæft málefni, með skírskotun í umræðu um fæðuöryggi á Íslandi.

Pétur Magnússon, RÚV. Fyrir útvarpsþáttaröðina Skaða. Mál Árna Tómasar Ragnarssonar læknis er hér skoðað frá öllum hliðum og útvarpsmiðillinn nýttur til hins ítrasta. Þættirnir varpa ljósi á ópíóðafaraldurinn á Íslandi og það úrræðaleysi sem blasir við þeim sem glíma við slíka fíkn. Í þáttunum er viðtölum við Árna Tómas, skjólstæðinga hans, aðstandendur, sérfræðinga og embættismenn fléttað listilega saman svo úr verður heildstæð og djúp en jafnframt lausnamiðuð frásögn af fólki sem samfélagið hefur ítrekað brugðist.

Viðtal ársins 2024

Erla Hlynsdóttir, Heimildinni. Fyrir viðtal við Agnesi M. Sigurðardóttur, fyrrverandi biskup Íslands. Hún er fyrsti kvenbiskup landsins en miklar deilur voru um stöðu hennar síðustu árin í embætti. Blaðamaður nær trausti viðmælandans sem opnar sig í fyrsta sinn um þá skömm og niðurlægingu sem hún upplifði eftir að óvissa kom upp um lögmæti embættisgjörða hennar. Blaðamanni tekst þannig að sýna deilur innan Þjóðkirkjunnar í nýju ljósi í gegnum sögu biskups.

Eva Björk Benediktsdóttir, RÚV. Fyrir viðtal við Hafdísi Báru Óskarsdóttur sem varð fyrir lífshættulegri líkamsárás af hendi barnsföður síns og fyrrverandi sambýlismanns. Viðmælandinn lýsir því hvernig lögregla brást henni í aðdraganda árásarinnar, en maðurinn hefur nú verið ákærður fyrir tilraun til manndráps og fleiri brot. Viðmælandi dregur ekkert undan svo úr verður sláandi frásögn, auk þess sem blaðamaður nýtir sjónvarpsmiðilinn á áhrifaríkan hátt.

Kolbeinn Tumi Daðason, fréttastofu Stöðvar 2, Vísis og Bylgjunnar. Fyrir viðtal við Davíð Viðarsson. Án óþarfa málalenginga er sögu hins upprunalega Davíðs Viðarssonar gerð skil. Aðstæður hans og samskipti við Quang Le eru harmrænar og blaðamaðurinn nálgast viðmælandann af virðingu og nærgætni, um leið og hann gerir flókna sögu skýra og spennandi. Viðtalið er knappt en engu að síður eitt hið eftirminnilegasta frá árinu enda óvæntur vinkill á stórt fréttamál.

Rannsóknarblaðamennska ársins 2024

Jóhann Bjarni Kolbeinsson og Árni Þór Theodórsson, RÚV. Fyrir umfjöllun um unga, fatlaða einstaklinga sem vistaðir eru á hjúkrunarheimilum fyrir aldraða því önnur úrræði skortir í heilbrigðiskerfinu. Dregið er fram hvernig brotið er á mannréttindum þessa stóra hóps, fólk er t.d. skilið eftir einangrað og afskiptalaust á herbergjum sínum, jafnvel í lengri tíma. Umfjöllunin veitti einstæða innsýn í veruleika jaðarsettra einstaklinga og afhjúpaði kerfislæga vanrækslu, auk þess að vekja upp umræðu og kröfur um bætt búsetuúrræði og mannsæmandi þjónustu fyrir þennan hóp.

Sunna Ósk Logadóttir og Bjartmar Oddur Þeyr Alexandersson, Heimildinni. Fyrir fréttaskýringar um Running Tide. Áhrifamikil umfjöllun sem afhjúpaði skýjaborgir fyrirtækisins Running Tide sem seldi vanhugsaðar lausnir á loftslagsvandanum. Rætt var við fjölda vísindamanna sem gagnrýndu vinnubrögð fyrirtækisins og þá var fjöldamargra gagna aflað við rannsóknina sem vörpuðu ljósi á hvernig bæði stjórnvöld og eftirlitsstofnanir brugðust hlutverki sínu varðandi starfsemi Running Tide. Fyrirtækið hætti starfsemi sinni bæði á Íslandi og í Bandaríkjunum um það leyti sem umfjöllun Heimildarinnar birtist.

Urður Örlygsdóttir og Arnar Þórisson, RÚV. Fyrir fyrir umfjöllun um mansal á matsölustöðum Quang Le. Rannsókn Kveiks fletti ofan af umfangsmikilli misnotkun og misrétti á víetnömskum veitingastöðum á Íslandi í eigu Quang Le, einnig þekktur sem Davíð Viðarsson. Umfjöllunin var yfirgripsmikil og vönduð og byggði á mikilli heimildarvinnu, meðal annars með viðtölum, myndefni og gagnagreiningu. Umfjöllunin varpaði ljósi á ýmsar skuggahliðar íslensks vinnumarkaðar, en Quang Le og samverkamenn hans sæta enn rannsókn lögreglu.

Blaðamannaverðlaun ársins 2024

Auður Jónsdóttir, Heimildinni. Fyrir fjölbreytt viðtöl og umfjallanir. Auður er sérstök rödd í íslenskri blaðamennsku; frjór menningarblaðamaður sem býður oft upp á óvænt og öðruvísi sjónarhorn og hefur fjallað mikið um tjáningarfrelsið. Samþætting menningar og tjáningarfrelsis kristallaðist vel í viðtali hennar við Kristin Hrafnsson um mál Julian Assange skömmu áður en sá síðarnefndi var látinn laus, sem og í viðtali við rithöfundinn Salman Rushdie sem var nánast eins og sjálfstætt listaverk.

Freyr Gígja Gunnarsson, RÚV. Fyrir fréttaskýringar í Speglinum. Freyr hefur sýnt einstaka þrautseigju í að krefja stjórnvöld um svör í ýmsum stórum fréttamálum og ítrekað nýtt upplýsingarétt almennings til að draga nýjar upplýsingar fram í dagsljósið og setja þær í samhengi. Kjarnaðist þetta einna helst í umfjöllun Freys um samskipti ráðamanna í aðdraganda þess að brottflutningi Yazan Tamimi var slegið á frest, en málið var síðasti naglinn í líkkistu ríkisstjórnar Framsóknar, Sjálfstæðisflokksins og Vinstri grænna.

Hólmfríður María Ragnhildardóttir, Morgunblaðið og mbl.is. Fyrir umfjöllun um skólakerfi í vanda. Vönduð og ítarleg fréttaröð þar sem þekking Hólmfríðar á efninu og sérhæfing skín í gegn. Hún nálgaðist málefnið frá mörgum hliðum og ræddi við kennara og aðra sérfræðinga úr menntakerfinu, auk þess að krefja stjórnvöld um svör, t.d. varðandi hríðversnandi námsárangur grunnskólanemenda á Íslandi og nýtt námsmat. Umfjöllun Hólmfríðar setti menntamálin rækilega á dagskrá, t.d. í þingkosningunum í nóvember, og var bæði fræðandi og lausnamiðuð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert