Framkvæmdir við endurnýjun á palli fyrir neðan kirkjutröppurnar við Akureyrarkirkju hófust í byrjun vikunnar. Af þeim sökum hefur neðri hluta kirkjutrappanna verið lokað og verða þær lokaðar næstu daga.
Á vef Akureyrarbæjar segir að þegar tröppurnar voru endurnýjaðar hafi ekki verið mögulegt að ljúka við og setja snjóbræðslu í neðsta pallinn. „Framkvæmdirnar við tröppurnar voru afar umfangsmiklar og fólu meðal annars í sér jarðvegsskipti og endurnýjun á niðurgröfnu þaki húsnæðisins undir tröppunum sem áður hýsti almenningssalerni. Nú er hins vegar hægt að klára þennan afmarkaða lokahluta og þar með verður snjóbræðsla í öllum tröppunum frá bílaplani við hótelið upp að Akureyrarkirkju,“ segir í tilkynningu á vef bæjarins.
Efri hluti kirkjutrappanna verður opinn meðan á framkvæmdunum stendur og verður hjáleið um stíginn sem endurnýjaður var síðasta sumar og liggur til suðurs að Sigurhæðum og þaðan niður á Hafnarstræti.
Lesa má meira um málið í Morgunblaðinu í dag