Skuldlausar eilífðarvélar besti arfurinn

Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar.
Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Raforkukerfið hér á landi er einstakt og eina kerfið í heiminum sem er svo gott sem 100% byggt á endurnýjanlegum orkugjöfum og alveg ótengt öðrum kerfum og ekki háð aðkomu jarðefnaeldsneytis. Virkjanir í þessu kerfi, sem hefur verið haldið vel við, og eru keyrðar áfram af náttúruöflunum sem skila rennandi vatni í vatnsaflsvirkjanir eða jarðvarma og gufu í jarðvarmavirkjanir, eru líklega það besta sem núverandi kynslóð mun færa komandi kynslóðum.

Þetta var meðal þess sem Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, sagði á ársfundi Landsvirkjunar í gær. Talaði hann þar um eldri virkjanir fyrirtækisins og sagði ótrúlegt að upplifa að fara með erlenda gesti inn í 50-60 ára virkjanir sem væru enn eins og nýjar þar sem viðhaldi hafi verið vel sinnt frá upphafi. Þá virkuðu þær fullkomlega og að erlendu gestirnir hefðu talað um að það væri meira eins og að koma inn á heilbrigðisstofnun en virkjun að heimsækja þær.

Tekist á við stóriðjuna en góð niðurstaða fyrir alla

Kallaði Hörður þessar eldri virkjanir, sem greitt hefur verið af fyrir löngu, „skuldlausar eilífðavélar“ og eitt besta framlag Íslendinga til loftlagsmála, auk þess að hafa sparað þjóðinni gríðarlega mikið af gjaldeyri í gegnum tíðina. 

Ítrekaði hann að kerfið væri fjármagnað af stórnotendunum, þ.e. stóriðjunni og sagði hann þau fyrirtæki vera gríðarlega mikilvæg fyrir uppbyggingu Landsvirkjunar og raforkukerfisins síðustu 60 ár. Tók hann fram að auðvitað hefði verið tekist á við þessa viðskiptavini um raforkuverð, en að báðir aðilar hefðu komist að góðri niðurstöðu sem tryggði samkeppnishæfni stóriðjunnar og sanngjarnt verð til Landsvirkjunar.

Arðsemin ekkert rosalega mikil

Fór hann næst hratt yfir fjárhagsstöðu fyrirtækisins og nefndi að á árunum 2021-2024 hefði Landsvirkjun greitt ríkissjóði 90 milljarða í arð og 60 milljarða í tekjuskatt. Eiginfjárhlutfall Landsvirkjunar er með hæsta móti, eða 66,2% og sagði Hörður að rekstur fyrirtækisins væri með allra besta móti, þrátt fyrir krefjandi árferði á síðasta ári. Hins vegar væri arðsemin sem hlutfall af eigin fé ekkert rosalega mikil og þar þyrfti að gera meira.

Sagði Hörður að rekstrarniðurstaða síðustu ára hefði meðal annars verið möguleg vegna endursamninga við stóriðjufyrirtækin, en þó væri eitt þeirra eftir. Þar vísaði hann til álversins á Reyðarfirði og sagði Hörður að þá myndi staða Landsvirkjunar breytast talsvert.

Vonast til að hindranir séu úr veginum

Framundan hjá Landsvirkjun eru fjórar stórar framkvæmdir. Þær eru Hvammsvirkjun í Þjórsárdal, en það verður fyrsta virkjun Landsvirkjunar í byggð. Þá er það Vaðalda (áður Búrfellslundur) ofar í Þjórsárdal, sem verður fyrsta vindorkuver landsins. Svo er það stækkun á Þeistareykjum og að lokum 65 MW stækkun Sigölduvirkjunar.

Sagði Hörður þetta mjög mikilvæg verkefni til að mæta spá um 25% aukna orkuþörf á næsta áratug, meðal annars vegna orkuskipta. Sagði hann að vonandi yrðu ekki frekari hindranir á þeirri vegferð að geta virkjað til að mæta þessari þörf, en nú síðast í janúar kom réttarleg óvissa vegna Hvammsvirkjunar. Orkumálaráðherra hefur reyndar þegar lagt fram frumvarp á þingi sem á að mæta þeirri óvissu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert