Eyjólfur Ármannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, hefur lagt fram minnisblað í ríkisstjórn og sent bréf til fjármálaráðherra um ástand vega á Vesturlandi. Vegagerðin hefur kallað eftir auknu fjármagni til þess að sinna viðhaldi á vegunum.
Ástand vega á Vesturlandinu hefur verið í umræðunni að undanförnu. Bikblæðingar hafa t.a.m. verið að myndast á vegum þar og þá hefur bæjarstjórn Grundarfjarðarbæjar lýst yfir þungum áhyggjum vegna hættulegs ástands þjóðvega á Snæfellsnesi og að Borgarnesi.
Einnig hefur Bergþóra Þorkelsdóttir vegamálastjóri sagt ástandið alvarlegt vegna langvarandi fjárskorts og tók Eyjólfur í svipaðan streng þegar mbl.is ræddi við hann síðast um málið.
Í samtali við mbl.is segist Eyjólfur hafa fundað með Vegagerðinni vegna málsins á mánudag í seinustu viku og svo sent bréf til fjármálaráðherra fyrir helgi.
Hann hafi svo tekið málið upp innan ríkisstjórnarinnar á ríkisstjórnarfundi í gærmorgun.
„Þetta mun fara fyrir ráðherranefnd um ríkisfjármál. Það er næsta skref í þessu máli,“ segir ráðherrann.
Þá segir hann að mögulega verði hægt að veita fjárauka úr varasjóði ríkissjóðs. „Vegagerðin er búin að óska eftir frekari fjárveitingum svo þeir geti farið í nauðsynlegt viðhald.“
Sjálfur hefur ráðherrann keyrt suma vegina á Vesturlandi og tekur undir að þörf sé á viðhaldi.
„Það er hjá dölunum mjög slæmt ástand. Ef þú ferð norður fyrir Bröttubrekku þá eru þar mjög slæmir vegir og ég tala nú ekki um þegar þú keyrir til Stykkishólms. Þar er bara holóttur vegur.“
Veistu hvenær niðurstaða gæti legið fyrir hjá nefndinni?
„Nei, ég bara vona að það verði fundur sem fyrst og vonandi verður hægt að taka á þessu máli fyrir sumarið.“