Halla Hrund Logadóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, skorar á ríkisstjórnina að setja af stað þjóðarátök í fæðuöryggi.
„Hér á ég við að efla innlenda matvælaframleiðslu og líka að kortleggja og styðja við aðföng líkt og raforku, eldsneyti, áburð og annað sem þarf fyrir hana. Af hverju er þetta mikilvægt nú? Jú, við vitum að óvissan í heimsmálum er mikil,“ sagði Halla Hrund undir liðnum störf þingsins á Alþingi í dag.
Hún benti á að bandarísk stjórnvöld hafi í gær hækkað tolla um fjórðung á innfluttar vörur frá Kanada og Mexíkó, auk þess sem viðskiptatakmarkanir gagnvart Kína hafi verið hertar.
„Við vitum að óvissan á mörkuðum er mikil og þetta bætist ofan á þá stöðu sem við höfum í Evrópu eftir innrás Rússa í Úkraínu,“ sagði hún.
Halla Hrund sagði enn fremur að það væri mikilvægt varnarviðbragð að hugsa um innviði hér á landi „og mér finnst skorta skilning á því. Mér finnst einfaldlega skorta skilning á því að landbúnaður er hluti af innviðum okkar. Hluti af okkar varnarviðbragði á að vera að byggja hann upp alveg eins og við horfum á aðra innviði, t.d. á Suðurnesjunum,“ sagði hún.
„Mér finnst hafa skort skilning á þessu hjá ríkisstjórninni sem hefur birst m.a. í tollamálunum gagnvart mjólkurbændum og það birtist okkur í Kastljósi í gærkvöldi þar sem garðyrkjubændur eru að hugsa um að hætta starfsemi vegna hækkana á raforkuverði. Þetta er allt eitthvað sem hægt er að breyta með lagasetningu og mun ekki standa á okkur í Framsókn að styðja við.“