Þótt WOW air hafi fallið með brauki og bramli í lok marsmánaðar 2019 var félagið í raun orðið ógjaldfært miklu fyrr. Þetta staðfesta gögn sem ekki hafa komið áður fram og varða samskipti stjórnenda fyrirtækisins mánuðina fyrir fallið.
Í þessum gögnum má sjá að starfsemi fyrirtækisins hékk á bláþræði mánuðum saman og það var rekið frá mánuði til mánaðar í fullkominni óvissu um hvort hægt yrði að standa í skilum við lánardrottna, innheimtumenn ríkissjóðs eða hvort laun yrðu yfirhöfuð greidd út þegar einum mánuði sleppti og annar tók við.
Mikið gjörningaveður skapaðist í kringum erfiðleika WOW air á árinu 2018 og lengi reyndu stjórnendur þess og eigandi, í samfloti við stjórnvöld og mögulega fjárfesta, allt sem í þeirra valdi stóð til þess að tryggja viðgang fyrirtækisins.
Á þeim tíma var orðið ljóst að fyrirtækið var afar mikilvægt þjóðhagslega og þjónaði sem önnur af mikilvægustu rásum fólksflutninga til og frá landinu, auk þess sem það skipti sífellt meiri sköpum fyrir útflutning á íslenskum afurðum sem komast þurftu hratt á erlenda markaði.
Í Morgunblaðinu í dag er fjallað um hina veiku stöðu sem fyrirtækið var í allt frá haustdögum 2018. Hin nýju gögn kalla á það en einnig sú staðreynd að hinn 28. mars næstkomandi verða sex ár liðin frá þessum atburðum sem skóku íslenskt samfélag.
Enn standa yfir málaferli vegna falls fyrirtækisins og enn hafa kröfuhafar ekkert fengið fyrir sinn snúð. Langflestir þeirra munu ganga bónleiðir til búðar.
Hin miklu áhrif sem fyrirtækið hafði, en ekki síst fall þess, hafa að nokkru leyti fallið í skuggann af öðrum áföllum sem riðu yfir á svipuðum tíma.
Fyrst má þar nefna alheimskyrrsetningu Boeing 737-MAX-vélanna sem hafði gríðarleg áhrif á Icelandair, flugfélagið sem eftir stóð þegar saga WOW air var öll. Og strax í kjölfarið útbreiðslu Covid-19-faraldursins sem lagði ferðaþjónustuna endanlega á hliðina.
Lesa má meira um málið í Morgunblaðinu í dag