Um 30 milljarðar króna í eigu ríkisins liggja á bankabókum viðskiptabankanna og á sama tíma nema óhagstæð lán ríkisins í formi útistandandi ríkisvíxla um 200 milljörðum. Með þessu tapar ríkið háum upphæðum árlega í vaxtamun sem hægt væri að koma í veg fyrir.
Björn Ingi Victorsson, formaður hagræðingarhóps stjórnvalda, segir innistæðurnar heyra undir Menntasjóð námsmanna og séu tilkomnar vegna offjármögnunar Lánasjóðs íslenskra námsmanna, forvera Menntasjóðs en eftirspurn eftir námslánum hefur minnkað töluvert á síðustu árum.
„Þetta er stærsta dæmið sem við erum með í höndunum ef ég man rétt en þetta er bara eitt dæmi og þau eru eflaust fleiri,“ segir Björn.
Í greinargerð hópsins með tillögunum kemur fram að talið sé að fjármála- og efnahagsráðuneytið geti náð fram mikilli hagræðingu með breyttu verklagi í samvinnu við Fjársýslu ríkisins og Seðlabanka Íslands.
Páll Winkel var ráðinn tímabundið í starf framkvæmdastjóra Menntasjóðs og segir hann að hans verkefni sé í raun að fara vel með peninga. Hann vildi að öðru leyti ekki tjá sig um málið þegar leitast var eftir því.
Áætluð hagræðing á árunum 2026-2030 er sögð vera um 3,75 milljarðar króna samkvæmt skýrslu hagræðingarhópsins.
Einnig er vikið að því í tillögunum að inn- og útgreiðslur ríkisins verði á einni hendi og lagt er til að Fjársýsla ríkisins sjái um allar útgreiðslur, allt bókhald og bankareikninga.
Þá segir að Skatturinn ætti að sjá um alla innheimtu skatta og gjalda sem að hluta til er hjá sýslumönnum í dag.
Segir í greinargerð með tillögunum að aðgerðirnar ættu að draga úr kostnaði, auðvelda eftirlit, minnka villuhættu og auka yfirsýn.
Í greinargerðinni er vísað til minnisblaðs Skattsins til Fjársýslu ríkisins þar sem segir að innheimta á einni hendi myndi leiða til þess að gjaldendur nytu jafnræðis og fengju eins afgreiðslu í sambærilegum málum.
Ekki er metið hversu mikill hagræðing verði af ráðstöfununum.
Björn Ingi segir að vitanlega eigi inn- og útgreiðslur að vera á færri höndum því þar með nýtist peningarnir betur.
„Ég held að eingöngu með þessum hætti sé hægt að spara miklu meira heldur en þessa 3,75 milljarða sem gert er ráð fyrir.
Björn Ingi er endurskoðandi og starfaði hjá Deloitte í 18 ár en er í dag forstjóri Steypustöðvarinnar. Hann segir hagræðingarverkefnið vera mjög metnaðarfullt og merkilegt.
Um 10 þúsund tillögur bárust en Björn Ingi segir margar sams konar tillögur hafa borist svo það sé ekki svo að 9.940 tillögur sitji eftir.
Nú geri hópurinn 60 tillögur að sínum sem eigi að skila 71 milljarði í hagræðingu til ársins 2030.
Það er vel tilefni til þess að fara inn í tillögurnar aftur og skoða upp á nýtt og sjá hvort það leynist fleiri góðar í þessum hópi.