Ægir sendi grjót og bolta yfir Nesvöll

Stuart Mitchinson staddur á 1. flöt Nesvallarins þegar ljósmyndara bar …
Stuart Mitchinson staddur á 1. flöt Nesvallarins þegar ljósmyndara bar að garði í gær. mbl.is/Hákon

Mikið grjót barst upp á fimm brautir af níu á Nesvellinum í sjávarflóðunum um síðustu helgi, þar á meðal fyrstu tvær flatirnar. Stuart Mitchinson, nýr vallarstjóri Nesklúbbsins, telur að margar vikur muni taka fyrir klúbbinn að hreinsa grjótið af golfvellinum.

Stuart hefur búið hérlendis í átta ár, er af ensku bergi brotinn og kemur frá Newcastle. Hann þekkir ágætlega hversu illa getur legið á veðurguðunum hér á landi en svo skemmtilega vill til að hann er akkúrat að taka við starfi vallarstjóra hjá Nesklúbbnum en starfaði áður í Mosfellsbænum.

Svona er nú umhorfs fyrir neðan teiginn á 2. brautinni.
Svona er nú umhorfs fyrir neðan teiginn á 2. brautinni.

„Fyrsti vinnudagurinn hjá mér var á mánudaginn,“ segir Stuart þegar Morgunblaðið tekur púlsinn á honum og spyr út í skemmdirnar. Heyra má að stutt er í enska kaldhæðni hjá vallarstjóranum. „Móðir náttúra var í hörkuformi. Þetta er fullkomin byrjun fyrir mig í nýju starfi,“ segir Stuart og hlær.

Hreinsað með handafli

Hann segir blasa við að margar vikur muni taka að hreinsa völlinn. Til þess þurfi samhent átak hjá klúbbmeðlimum og Seltjarnarnesbæ. Stuart útskýrir að hreinsun vallarins taki tíma þar sem jarðvegurinn sé mjög mjúkur og viðkvæmur á þessum árstíma. Þar af leiðandi verði ekki farið með stórvirkar vinnuvélar inn á völlinn í stórum stíl.

„Þetta er áhugaverð staða. Við þurfum hóp manna til að laga skemmdirnar sem grjótið skilur eftir sig en of snemmt er að segja til um hvaða áhrif þetta kann að hafa þegar völlurinn verður opnaður í sumar. Hreinsunarstarfið verður unnið með höndunum að langmestu leyti. Í einhverjum tilfellum eru steinarnir meira en hundrað kíló að þyngd en margar hendur vinna létt verk,“ segir Stuart en fyrstu tvær flatirnar eru til dæmis útataðar í grjóti.

Lesa má meira um málið í Morgunblaðinu í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert