Um sjö prósent fullorðinna Íslendinga hafa sótt meðferð vegna áfengisfíknar á sjúkrahúsinu Vogi. Benda rannsóknir til að samfélagslegur kostnaður vegna áfengisvandans sé á annað hundrað milljarðar króna á hverju ári, þegar allt er talið. Eru það sambærilegar tölur og í Noregi og Svíþjóð.
Þetta kom fram í máli Ölmu Möller heilbrigðisráðherra í sérstakri umræðu um áfengis- og vímuefnavandann á Alþingi í dag, en málshefjandi var Sigmar Guðmundsson, þingmaður Viðreisnar.
Alma sagði ljóst að innviðaskuld væri í málflokknum, en það heildarfjármagn sem er nú veitt í hann eru 3,2 milljarðar króna. Ætlar hún að leggja til að í fjáraukalögum verði að auki veittar 350 milljónir til að styrkja og auka fyrirliggjandi úrræði, til að stytta bið og tryggja að ekki þurfi að koma til sumarlokana.
Sigmar óskaði eftir svörum frá Ölmu um það hvernig ráðherra hygðist vinna úr niðurstöðum starfshópa um skaðaminnkun og mótun áfengis- og vímuefnastefnu sem settir voru á laggirnar í tíð fyrri ráðherra.
Óskaði þingmaðurinn einnig eftir upplýsingum um hvernig brugðist hefði verið við skýrslu ríkisendurskoðunar um ópíóðafaraldurinn þar sem kom fram gagnrýni á stjórnvöld fyrir andvaraleysi og fullyrt var að stefnuleysi ríkti í málaflokknum. Fjárþörfin hefði ekki verið metin og ákveðnir hópar fengju ekki þjónustu við hæfi.
Sigmar sagði ekki til nákvæmar tölur yfir dauðsföll vegna fíknisjúkdómsins, enda væri tölfræðin falin. Eitranir, sjálfsvíg, slys, manndráp og aðrir sjúkdómar væru í raun oft vegna fíknisjúkdómsins.
„Þeir sem best þekkja til, og það er m.a. byggt á gagnagrunni SÁÁ, telja að á milli 100 og 200 dauðsföll megi rekja beint til fíknisjúkdómsins á hverju einasta ári. Það þarf ekki að taka það fram að þessar tölur eru skelfilegar og okkur ber að taka þær alvarlega og gera allt sem í okkar valdi stendur til að lágmarka skaðann. 56 einstaklingar létust árið 2023 vegna lyfjaeitrunar,“ sagði Sigmar.
Biðlistar væru of langir og lægi ábyrgðin í áratuga vanmati stjórnvalda á afleiðingum sjúkdómsins.
Fram komi í máli heilbrigðisráðherra að unnið væri að heildarstefnu í áfengis- og vímuvörnum sem myndi taka til forvarna, meðferðar, eftirfylgni, endurhæfingar og lagaumhverfis. Þá lægi fyrir gagnlegt stöðumat frá erlendum sérfræðingi.
Sjúkratryggingum hefði verið falið að gera nýjan heildarsamning við SÁÁ og fjármagn til viðhaldsmeðferðar við ópíóðafíkn hefði verið aukið í 450 meðferðir í stað 90 áður. Sjúkratryggingum hefði einnig verið falið að semja um þróun flýtimóttöku þannig að einstaklingur sem finnur hjá sér hvöt til meðferðar fái áheyrn innan 24 tíma.
Alma sagði það blasa við að innviðaskuld væri í málflokknum, en ekki væri þó hægt að ljúka greiningu á fjárþörf fyrr en eftir að stefnumótun hefði farið fram.
Það heildarfjármagn sem nú er veitt í málflokkinn er 3,2 milljarðar. Alma sagðist ætla að leggja það til að í fjáraukalögum yrðu að auki veittar 350 milljónir króna til að styrkja og auka fyrirliggjandi úrræði, til að stytta bið og tryggja að ekki þurfi að koma til sumarlokana.