Björn Björnsson, fréttaritari Morgunblaðsins á Sauðárkróki og fv. skólastjóri, lést aðfaranótt 4. mars, 82 ára að aldri.
Björn fæddist 25. febrúar 1943 á Syðra-Laugalandi í Eyjafirði. Foreldrar hans voru ábúendur þar, Björn Jóhannsson og Emma Elíasdóttir.
Björn ólst upp á Syðra-Laugalandi við sveitastörf, tók barnaskólaprófið heima og landsprófið í miðskóladeild Menntaskólans á Akureyri. Um tvítugt flutti hann suður og vann þar ýmis störf, fyrst í bókhaldi hjá SÍS, seldi mjaltavélar um skeið og vann í bókabúð á Laugavegi 47.
Árið 1968 flutti Björn til Sauðárkróks, á heimaslóðir eiginkonu hans, Birnu S. Guðjónsdóttur. Í fyrstu ráku þau útibú fyrir raftækjaverslunina Ratsjá en 1970 hóf Björn kennslu í Barnaskóla Sauðárkróks, skráði sig í Kennaraskóla Íslands og útskrifaðist þaðan sem kennari 1972. Björn varð skólastjóri Barnaskólans 1974 og gegndi þeirri stöðu allt til 1998 er grunnskólastigin voru sameinuð. Eftir það var Björn skólastjóri Grunnskólans á Hofsósi til 2005.
Hann var eftirsóttur veislustjóri og ræðumaður, var góður sögumaður og hagyrðingur. Tók á móti fjölda hópa sem heimsóttu Skagafjörð og leiðsagði þeim um héraðið. Björn var fréttaritari Morgunblaðsins frá 1991 og ritaði fjölda frétta og greina úr Skagafirði, m.a. um leiki Tindastóls í knattspyrnu og körfubolta, sem hann sótti stíft.
Björn gegndi ýmsum trúnaðarstörfum í félags- og stjórnmálum. Hann var um árabil ritari bæjarstjórnar Sauðárkróks og varð síðar bæjarfulltrúi fyrir Sjálfstæðisflokkinn árin 1990-1998. Hann var félagi í Oddfellowreglunni í rúm 40 ár, fyrst á Akureyri og síðar Sauðárkróki, átti frumkvæði að stofnun stúku þar og vann ötullega að endurnýjun regluheimilisins á Sauðárkróki.
Birna, eiginkona Björns, lést árið 2021, 78 ára að aldri. Dætur þeirra eru Ólína Inga, f. 1966, Arna Dröfn, f. 1975, og Emma Sif, f. 1977. Barnabörnin eru níu og barnabarnabörnin sex.
Við leiðarlok þakkar Morgunblaðið Birni fyrir gott og farsælt samstarf og sendir fjölskyldu hans innilegar samúðarkveðjur.