Landsréttur telur að ekki verið „slegið föstu“ að Sindri Snær Birgisson hafi með athöfnum sínum sem tilgreindar eru í ákæru sýnt ótvírætt í verki ásetning til að fremja hryðjuverk. Því var hann sýknaður fyrir tilraun til hryðjuverka, og Ísidór Nathansson þar af leiðandi sýknaður fyrir hlutdeild í broti Sindra.
Þetta kemur fram í dómi Landsréttar sem var birtur eftir að dómsuppsaga fór fram í hryðjuverkamálinu svokallaða í dag.
Dómar þeirra fyrir stórfellt vopnalagabrot voru mildaðir, Sindri var dæmdur í 18 mánaða fangelsi og Ísidór 15 mánaða.
Ákæruvaldið hafði krafist þess að mennirnir yrðu sakfelldir og refsing þyngd fyrir vopnalagabrotið. Verjendur mannanna höfðu farið fram á sýknu og refsilækkun.
Sveinn Andri Sveinsson, verjandi Sindra, sagði eftir að dómur féll í samtali við mbl.is að mennirnir myndu sækja rétt sinn gagnvart ríkinu.
Dómur Landsréttar er tæpar 13 blaðsíður og í honum er ítarlega farið yfir lögin sem Sindri og Ísidór voru ákærðir fyrir brot á og hvað felst í þeim, 1., 2. og 4. tölulið 100. gr. a, sbr. 1. mgr. 20. gr., almennra hegningarlaga nr. 19/1940 – það er að segja tilraun til hryðjuverka.
Líkt og í hinum áfrýjaða dómi er farið yfir íslenska tilraunarákvæðið, sem er að fyrirmynd danskra hegningarlaga:
Hver sá sem tekið hefur ákvörðun um að vinna verk, sem refsing er lögð við í almennum hegningarlögum, og ótvírætt sýnt þann ásetning í verki, sem miðar eða er ætlað að miða að framkvæmd brotsins, hafi, þegar brotið er ekki fullkomnað, gerst sekur um tilraun til þess.
Í orðalagi ákvæðisins felst að tilraunarverk getur því aðeins orðið refsivert að það sé unnið af ásetningi. Í verknaðarlýsingu danska ákvæðisins kemur orðið „ótvírætt“ ekki fyrir eins og í því íslenska.
„Í öllu falli er ljóst að samkvæmt ákvæðinu dugir ekki ráðagerð ein heldur verður hún að birtast „í verki“,“ segir í dómnum.
Þá segir um meint hlutdeildarbrot Ísidórs: „Um huglæga afstöðu hlutdeildarmanns gildir sú regla að ásetningur hans verður að standa til þess að brot verði fullframið þótt atbeini hans sé einungis fyrir hendi á undirbúningsstigi þess.“
Í dómnum er minnst á að ákæruvaldið vísaði í danska dóma sér til rökstuðnings, þar sem sakfellt hefur verið fyrir tilraun til hryðjuverka og hlutdeild þar í, þótt um undirbúningsathafnir hafi verið að ræða.
„Að mati réttarins eru þau mál engan veginn sambærileg því sem hér um ræðir, hvorki hvað varðar athafnir sem um var að tefla né sönnunarstöðu að öðru leyti,“ segir í dómnum.
Í dómnum segir að ákæruvaldið hafi reist málatilbúnað sinn á því að Sindri hafi verið búinn að taka ákvörðun um að fremja hryðjuverk og hafi hann sýnt ásetning sinn til þess ótvírætt í verki er horft er á heildarmyndina.
Landsréttur féllst á það að við mat á huglægri afstöðu Sindra og Ísidórs verði að virða heildstætt athafnir þeirra.
Það sama á við um Signal-samskipti þeirra „sem voru umfangsmikil, og eru þau samskipti sem vísað er til í ákæru aðeins óverulegur hluti þeirra“.
Verjendur mannanna og þeir sjálfir sögðu ítrekað fyrir dómi að samskipti þeirra væru klippt úr samhengi í ákæru. Þessu er dómurinn sammála og að betur eigi að horfa á samskiptin í heild.
„Sést að oft hafa þeir staldrað stutt við þau samtöl og athafnir sem í ákæru greinir og í beinu framhaldi farið að ræða eða skoða eitthvað allt annað. Þá áttu netleitir sem vísað er til í ákæru sér oftar en ekki stað meðan á þeim samskiptum stóð sem vísað er til í öðrum ákæruliðum,“ segir í dómnum.
Landsréttur tekur undir það mat héraðsdóms „að í allflestum tilvikum sé um að ræða ógeðfelld ummæli og oft hatursfulla orðræðu í garð tiltekinna trúar- og samfélagshópa“.
Að mati dómsins verður að virða ummæli og athafnir Sindra og Ísidórs í því ljósi að fyrir liggur að þeir stóðu að framleiðslu skotvopna auk þess sem skotvopn voru í eigu Sindra.
Ákæruvaldið vildi meina að framleiðsla og sala skotvopnanna hefði verið liður í því að fjármagna hryðjuverkastarfsemi. Mennirnir sögðu það hins vegar einungis hafa verið í tekjuskyni.
„Á hinn bóginn verður einnig að líta til þess að ákærðu eru í málinu sakfelldir fyrir að hafa selt skotvopn sem framleidd voru. Með hliðsjón af því verður tekið undir það mat héraðsdóms að ekki sé unnt að miða við að framleiðsla skotvopnanna hafi verið liður í undirbúningi hryðjuverka,“ segir í dómi Landsréttar.
Í dóminum segir að með undirbúningsathöfnum þurfi að vera unnt að draga þá ályktun að ásetningur hafi staðið til fullframningar brots og þá að undangengnu ströngu mati á huglægri afstöðu geranda, sbr. orðalag ákvæðisins um að hann hafi ótvírætt sýnt þann ásetning í verki.
„Verður að telja að í því orðalagi felist jafnframt að strangari kröfur verði að gera til mats á huglægri afstöðu geranda til ætlaðra undirbúningsathafna en ef um framkvæmdaathöfn væri að ræða.“
Við þetta bætist að samkvæmt 100. gr. a almennra hegningarlaga þarf ekki aðeins að sýna fram á ásetning til þeirra grunnbrota sem í ákvæðinu eru talin, heldur einnig að fyrir liggi ásetningur til að fremja hryðjuverk.
Niðurstaða Landsréttar er að því verði „ekki slegið föstu að ákærði Sindri Snær hafi með athöfnum þeim sem í ákæru greinir sýnt ótvírætt í verki ásetning til að fremja hryðjuverk eins og þar greinir. Þá verður ekki heldur talið að sýnt hafi verið fram á ásetning ákærða Ísidórs til hlutdeildar í slíkum verknaði“.
Er það því niðurstaða Landsréttar að staðfesta sýknudóm héraðsdóms.
Líkt og áður sagði staðfesti Landsréttur niðurstöðu héraðsdóms um sakfellingu ákærðu fyrir stórfelld vopnalagabrot samkvæmt ákærunni og sé háttsemi þeirra þar rétt færð til refsiákvæða. Sindri hafði verið dæmdur í 24 mánaða fangelsi í héraði og Ísidór í 18 mánaða fangelsi.
Þá hafði Sindri farið fram á að kröfu ákæruvaldsins um upptöku á þremur rifflum af gerðinni AK-47, AR-15 og CZ557 yrði vísað frá héraðsdómi. Þá krafðist hann þess að kröfu ákæruvaldsins um upptöku á 1.620.000 krónum í reiðufé yrði hafnað.
Frávísunarkrafan var rökstudd með því að upptökukröfu hefði átt að beina að föður hans sem skráðs eiganda vopnanna.
Landsréttur staðfestir hins vegar þá niðurstöðu héraðsdóms að Sindri hafi verið raunverulegur eigandi skotvopnanna og að skráning þeirra á föður hans hafi verið til málamynda þar sem Sindri hafði ekki skotvopnaleyfi. Er frávísunarkröfunni því hafnað og staðfest niðurstaða héraðsdóms um upptöku á framangreindum skotvopnum og reiðufé.