Fjórtán matarbásar sem settir höfðu verið upp á í sögufrægu húsi á Vesturgötu 2 hafa verið fjarlægðir eftir úrskurð í Héraðsdómir Reykjavíkur þess efnis. Básarnir voru settir upp af athafnamanninum Quang Le sem hafði hug á því að opna mathöll á Vesturgötu þegar lögregla handtók hann í mars í fyrra vegna gruns um mansal og skipulagða glæpastarfsemi.
Málið er enn til rannsóknar hjá lögreglu en ekki hefur verið ákært í því.
Rekstur matarbásanna var undir merkjum Vietnam Cuisine ehf. sem er eitt þeirra félaga sem fóru í þrot eftir að Quang Le var settur í gæsluvarðhald og eignir hans frystar.
Eftir að Vietnam Cuisine gat ekki staðið við leigusamning á húsinu, sem var upp á rúmlega 3,6 milljónir á mánuði, rifti Fjelagid ehf. samningi við Vietnam Cuisine og eignaðist í kjölfarið matarbásana tímabundið.
Þrotabú Vietnam Cuisine sætti sig hins vegar ekki við það og gerði aðfararbeiðni til að endurheimta matarbásana og raunar einnig lofræsti- og brunakerfi, uppþvottavélasamstæðu og parket sem lá í stöflum innanhúss.
Helstu rök Fjelagsins ehf. sem er eigandi að Vesturgötu 2 voru þau að verulegar breytingar hefðu verið gerðar á húsnæðinu og að í ljósi þess að munirnir væru naglfastir ættu þeir raunverulega að fylgja húsnæðinu áfram líkt og tilgreint er í leigulögum. Þá er á það bent að gerður hafi verið tíu ára leigusamningur og að átta ár hafi verið eftir af honum. Nemur upphæðin sem eftir átti að greiða á samningstímanum ríflega 370 milljónir króna. Gerði Fjelagið kröfu í þrotabú Vietnam Cuisine fyrir þeirri upphæð.
Dómari úrskurðaði hins vegar þrotabúi Vietnam Cuisine alfarið í hag. Þannig var ekki tekið undir þau sjónarmið að þrotabúið ætti að greiða það sem eftir væri af samningstíma leigusamn ings og að þeir munir sem höfðu verið festir innanhúss bæri að fjarlægja.