Dró sér 40 milljónir úr dánarbúi móður sinnar

Karlmaður hefur verið ákærður fyrir fjárdrátt og peningaþvætti fyrir að hafa dregið sér rúmlega 40 milljónir króna úr dánarbúi móður sinnar.

Maðurinn var umboðsmaður erfingja í einkaskiptum á dánarbúi móður sinnar og er honum gert að sök að hafa dregið að sér í sjö tilvikum, og notað heimildarlaust í eigin þágu, fjármuni af bankareikningi dánarbúsins.

Móðirin lést í lok árs 2018 og á maðurinn að hafa dregið að sér fjármunina á tímabilinu 3. júní 2019 til og með 25. apríl 2021.

Maðurinn er búsettur á Suðurnesjum.
Maðurinn er búsettur á Suðurnesjum. mbl.is/Ófeigur

Lagði pening inn á dóttur sína

Voru þetta reiðufjárúttektir sem námu tæplega 26 milljónum króna og millifærslur á eigin bankareikning sem námu rúmlega 14,3 milljónum króna.

Dánarbúið var samkvæmt kröfu sýslumanns tekið til opinberra skipta með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 24. janúar 2022.

Maðurinn er einnig ákærður fyrir peningaþvætti en hann lagði fimm milljónir króna inn á bankareikning dóttur sinnar og þá millifærði hann rúmlega 14 milljónir króna af eigin reikningi inn á annan bankareikning í sinni eigu.

Höfða ber málið í Héraðsdómi Reykjaness en maðurinn er búsettur á Suðurnesjum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert