Náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands segir að á meðan landrisið haldi áfram þá séu miklu meiri líkur á eldgosi en ekki á Sundhnúkagígaröðinni.
Síðasta gosi á Sundhnúkagígaröðinni lauk 9. desember og goshléið er orðið það lengsta síðan goshrinan við gígaröðina hófst með eldsumbrotum í desember 2023. Sjö eldgos hafa orðið á þessum tíma.
„Það virðist vera að kvika sé enn þá að safnast undir Svartsengi og landrisið heldur áfram á svipuðum hraða. Það eru því engar vísbendingar um að þessu sé að ljúka. Það eru okkar niðurstöður hér innanhúss,“ segir Steinunn Helgadóttir, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands, við mbl.is.
Steinunn segir að sjö til níu jarðskjálftar séu að mælast við kvikuganginn á sólarhring.
Í ljósi þess að goshléið er orðið það lengsta, gætum við þá átt von á stærra gosi en áður?
„Það er erfitt að segja til um það en magn kviku sem safnast hefur undir Svartsengi er orðið meira heldur en fyrir síðasta gos. Það er ekki hægt að útiloka að gosið verði stærra en uppsöfnun inni í kvikuhólfinu hefur verið hægari en áður og það spilar inn í,“ segir hún.
Steinunn segir að gera megi ráð fyrir að fyrirvari fyrir eldgos verði mjög stuttur en í síðustu tveimur eldgosum liðu 30 til 40 mínútur frá því fyrstu merki um skjálftahrinu sáust og þar til eldgos hófst.