Er einkunnin ljósgræn eða dökkgræn?

„Stefna okkar í grunnskólamálum hefur verið gagnrýnd, og það er ekki að ástæðulausu,“ segir Ásdís Kristjánsdóttir, bæjarstjóri Kópavogs.

Ásdís, sem heimsótti alla grunnskóla bæjarins eftir að ítarleg umfjöllun Morgunblaðsins og mbl.is fór af stað síðasta sumar, segir að tækifæri séu til að bæta menntakerfið og umgjörð þess.

Hún segir foreldra kalla eftir skýrari upplýsingum um stöðu barna sinna í námi og að börn skilji oft ekki einkunnir sínar sjálf.

„Það eru þarna rauð flögg úti sem við verðum að bregðast við. Og þess vegna erum við Almar að eiga þessi samtöl og erum að móta aðgerðaplan til að bregðast við þessari stöðu,“ heldur hún áfram.

Hún ræðir áskoranir í skólamálum, ásamt Almari Guðmundssyni bæjarstjóra Garðabæjar, í Dagmálum.

Ítrekað frestað

Ásdís bendir á að stjórnvöldum beri lögum samkvæmt að tryggja samræmt námsmat í grunnskólum.

Eftir að fyrirlögn samræmdra könnunarprófa misfórst tvisvar, árin 2019 og 2021, var ákveðið að fresta samræmdum prófum þar til nýtt fyrirkomulag tæki við.

Í júlí 2021 kom fram í tilkynningu að prófin yrðu ekki lögð fyrir um haustið, en að nemendur gætu tekið ný hæfnimiðuð samræmd könnunarpróf næsta vor. Febrúar árið eftir kom önnur tilkynning um að samræmd könnunarpróf yrðu ekki lögð fyrir á því skólaári og að nýtt námsmat, matsferill, væri í þróun. 

Í september 2022 kom fram að með lagabreytingu hefði skyldu um lagningu samræmdra prófað verið frestað út árið 2024 eða á meðan unnið væri áfram að þróun matsferilsins. 

Í mars árið 2023 var stefna um nýtt námsmat grunnskóla, matsferilinn, kynnt í samráðsgátt. Þar sagði að unnið yrði að gerð fyrstu verkfæra matsferilsins árin 2023-2024 og að þau yrðu tilbúin til notkunar í janúar árið 2025.

Matsferillinn, hið nýja samræmda námsmat, var þó ekki tilbúinn þá. Hyggjast stjórnvöld nú leggja námsmatið fyrir á næsta skólaári, en þess ber að geta að það verður aðeins í íslensku og stærðfræði.

„Börnin vita ekki alveg hvers konar mat þau eru að …
„Börnin vita ekki alveg hvers konar mat þau eru að fá, þau skilja ekki hvort að B-ið sé hátt eða lágt. Hvort að grænn sé ljósgrænn eða dökkgrænn,“ segir Ásdís. mbl.is/Karítas

Tortryggni og óvissa

Það að stjórnvöld hafi ekki tryggt samræmt námsmat síðustu ár segir Ásdís hafa grafið undan grunnskólunum.

„Það er þessi tortryggni, þessi óvissa,“ segir hún. Foreldrar vilji upplýsingar um hvernig börnin þeirra standi sig í námi og hvernig þau geti stutt betur við þau.

„Börnin vita ekki alveg hvers konar mat þau eru að fá, þau skilja ekki hvort að B-ið sé hátt eða lágt. Hvort að grænn sé ljósgrænn eða dökkgrænn,“ segir Ásdís og vísar þar til einkunna barna í grunnskólakerfinu.

„Þessu verðum við auðvitað að bregðast við.“

Eigum að veita framúrskarandi menntun

Hún segir umræðuna um menntamálin mikilvæg, þetta sé mikilvægasti málaflokkur sveitarfélaga. 

„Við viljum öll gera vel. En þá er það ekki eitthvað einkasamtal sem við eigum við sviðsstjórana okkar. Þetta er samtal sem við þurfum að eiga við skólasamfélagið, við nemendur okkar og við foreldra síðast en ekki síst,“ segir Ásdís.

„Við eigum að veita hér framúrskarandi menntun fyrir börnin okkar. Guð minn almáttugur, þau eiga það nú aldeilis skilið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert