Jens Garðar Helgason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir Ríkisútvarpið „brenna skattfé“ og bendir á að stofnunin hafi tapað um 360 milljónum á síðustu þremur árum, þrátt fyrir að vera með tæpa tíu milljarða í tekjur á ári.
Hann vekur athygli á þessu í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag, og vísar þar í úttekt Viðskiptaráðs á stöðu fjölmiðla á Íslandi.
„Þar kemur fram að einkareknir fjölmiðlar eiga sér ekki viðreisnar von í baráttunni við RÚV, sem byrjar hvert ár með margra milljarða króna forskot í gegnum nefskattinn auk þess að vera risi á auglýsingamarkaði,“ segir Jens og bendir á að RÚV fái um sex og hálfan milljarð frá ríkinu á ári auk þriggja milljarða í auglýsingatekjur.
„Samt ná frjálsir fjölmiðlar eins og Árvakur og Sýn að halda úti öflugum fréttastofum fyrir minna. Á meðan Rúv brennir skattfé, en stofnunin hefur tapað um 360 milljónum á síðustu þremur árum, þrátt fyrir 10 milljarða á ári í tekjur. Er þetta boðleg meðferð á skattfé hjá stofnun sem keppir við einkarekin fyrirtæki á markaði?“ spyr hann.
Segir hann Loga Einarsson, menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra, hafa svarað fyrirspurn þingmannsins Diljár Mistar Einarsdóttur „mjög aumlega og í fáum orðum“.
Óskaði húnupplýsinga um hvort til stæði að taka Rúv af auglýsingamarkaði.
Ráðherra hafi þó tekið fram að Rúv ætti að verða hluti af einhverju sem ríkisstjórnin kallar „fjölmiðlastefnu“ sem leggja á fram á haustþingi 2025.
Segir Jens þetta „frekar óljóst og loðið“.
Krefur hann ráðherra svara um hver raunveruleg stefna ríkisstjórnarinnar væri um veru Rúv á auglýsingamarkaði og hver hin pólitíska sýn ríkisstjórnarinnar væri á þetta mál.
„Við erum kannski búin að fá okkur fullsödd af stjórnvöldum sem taka einmitt stórt upp í sig en gera ekki hlutina,“ segir Logi og bendir um leið á að styrkir til fjölmiðla, sem hann kallaði hugarfóstur Sjálfstæðisflokksins, hafi gert gagn. Hrósaði ráðherrann fráfarandi ríkisstjórn fyrir það.
Segir hann nýjan alþjóðlegan veruleika blasa við og að beita þurfi mörgum leiðum til þess að efla einkarekna fjölmiðla. Taka þurfi líklega á erlendum auglýsendum og streymisveitum.
„Við þurfum að styrkja líka einkareknu fjölmiðlanna, hvort það verður í formi styrkja, hvort það verður gert með skattaívilnunum eða endurgreiðslum eða öðrum hlutum – það verður bara að koma í ljós að undangenginni vandaðri vinnu. Ég er stoltur af Ríkisútvarpinu og Ríkisútvarpið gegnir mjög mikilvægu hlutverki – menningarlegu, öryggislegu og í heimi alþjóðlegrar upplýsingaóreiðu skiptir það líka máli,“ segir Logi.
Tekur hann fram að einkareknu fjölmiðlarnir leiki einnig lykilhlutverk og segist munu leitast við að leggja fram vandaða vinnu sem tryggir stöðu Rúv en styrkir á sama tíma einkareknu fjölmiðlana.
Hann vilji frekar vera varfærinn í upphafi en koma með stór orð og gera ekki neitt.
Jens þakkar ráðherranum fyrir að hafa „tamið sér þá hógværð sem að hann er núna búinn að temja sér nýlega í þinginu.“
Jens segir Loga þó ekki hafa svarað fyrirspurn sinni. Hann bendir á að ekki þurfi aðeins að skoða stöðu og veru Rúv á auglýsingamarkaði heldur þurfi raunar að rýna í rekstur stofnunarinnar.
Þátttakendur í pallborðsumræðum á málþingi Viðskiptaráðs um stöðu fjölmiðla í gær hafi nefnt lygileg dæmi um hvernig farið sé með fé skattborgara innan RÚV.
„Það er því augljóst að mínu viti að það þarf að skoða stöðu Ríkisútvarpsins frá öllum mögulegum hliðum. Hvernig er Ríkisútvarpinu að takast að sinna hlutverki sínu og uppfylla sínar lagalegu skyldur, og allt sem Ríkisútvarpið gerir innan þess ramma, eða er Rúv að einhverju leyti komið langt út fyrir skilgreint hlutverk,“ segir Jens.
„Ég biðst nú innilega afsökunar á því að fulltrúi Samfylkingarinnar í ríkisstjórninni sé ekki búinn að komast til botns í þessum hlutum á tveimur mánuðum, sem að Sjálfstæðisflokkurinn hefur haft áratugi til að skoða,“ svarar Logi og uppskar hlátur í salnum.
Segist hann lofa að Rúv verði skoðað eins og annað. Að einhverju leyti sé um að ræða samverkandi þætti. Staða Rúv sé fyrirferðarmikil á fjölmiðlamarkaðnum og það verði skoðað.
„Hins vegar mun ég ekki standa fyrir því að Rúv, okkar dýrmæta almenningsútvarp, verði veikt þannig að það geti ekki sinnt hlutverki sínu. En ég skal líka koma fram, koma háttvirtum þingmanni á óvart næsta haust, með alvörutillögur um úrbætur á fjölmiðlamarkaði.“