Hnífar, fíkniefni og stríðsástand á Stuðlum

Maðurinn telur mikilvægt að koma erfiðasta hópi skjólstæðinga burt af …
Maðurinn telur mikilvægt að koma erfiðasta hópi skjólstæðinga burt af höfuðborgarsvæðinu. mbl.is/Karítas

„Ef Háholt verður ekki opnað þá lít ég svo á að við séum búin að tapa þessu stríði,“ segir innanbúðamaður á Stuðlum í samtali við mbl.is. Hann treystir sér ekki til að koma fram undir nafni af ýmsum ástæðum, en þekkir vel bæði starfsemina á Stuðlum og skjólstæðingana sem þar eru.

Hann telur einu raunhæfu lausnina, eins og staðan er núna, að koma þeim erfiða hópi drengja sem nú dvelur á Stuðlum; í gæsluvarðhaldi, með alvarlegan fíknivanda eða langa afbrotasögu, í úrræði utan höfuðborgarsvæðisins. Bæði drengjanna vegna og til að vernda aðra skjólstæðinga.

Nálægðin við höfuðborgarsvæðið auðveldi aðgengi að fíkniefnum og í útivist sé hætt við að drengirnir rekist á félaga eða einhverja sem þeim er í nöp við. Slíkt sé ávísun á uppþot og vandræði. Þá hafi fundist hnífar inni á herbergjum hjá drengjunum, en ekki má leita á þeim þegar koma inn.

„Tryllt barn“ á neyðarvistun vekur alla

Hann segir aðeins nokkrar vikur síðan töluvert magn fíkniefna komst í umferð á Stuðlum og drengirnir hafi meira og minna verið í vímu í tvær vikur. Svo hafi fráhvörfin tekið við með tilheyrandi álagi á starfsfólk. 

Síðasta helgi hafi til að mynda verið það þung að nokkrir starfsmenn hafi hringt sig inn veika á mánudeginum. 

Þá tekur hann sem dæmi atvik sem kom upp í vikunni þegar barn kom inn í neyðarvistun og drengirnir á meðferðardeildinni reyndu að brjóta upp hurðina til að komast þar inn. „Þetta eru bara óboðlegar aðstæður,“ segir hann. Blöndun skjólstæðinga með ólíkan vanda hafi neikvæð áhrif á alla.

„Þetta er ekki hljóðeinangrað, ef það kemur tryllt barn inn á neyðarvistun þá vekur það allt húsið.“

Hann bendir á að börnin þekkist flest, enda sé ekki um stóran hóp að ræða, og ef drengirnir heyri einhvern koma inn í neyðarvistun þá linni þeir ekki látunum fyrr en þeir komast að því hver það er.

„Þetta er bara geymsla“

Hann segir enga meðferð eða betrun nú eiga sér stað á Stuðlum. Úrræðið sé eingöngu geymslustaður. Einhver betrun verði hins vegar að eiga sér stað, til að losa drengina úr þeim vítahring sem þeir eru fastir í.

„Það vorum við að gera á gömlu meðferðardeildinni. Við erum ekkert að betra þessa stráka. Við erum að gera okkar besta til að halda friðinn og passa að þeir slasi ekki sjálfa sig eða aðra. En það er engin betrun í þessu. Þetta er bara geymsla. Það er staðreyndin.“

Hann bendir á að svo verði þessir drengir 18 ára og barnaverndarkerfið grípi þá ekki lengur. Þá fari þeir út í samfélagið, án þess að hafa fengið einhverja meðferð eða betrun að ráði, alveg jafn tilbúnir að brjóta af sér og alveg jafn hættulegir sjálfum sér og öðrum.

„Ég veit ekki hvort það þarf aðra hnífstungu svo fólk endanlega vakni. Það er staðan.“

Stuðlar eina skjólið sem býðst

Nú eru fjórir drengir á Stuðlum, einn í gæsluvarðhaldi, tveir sem eiga langa neyslu- og afbrotasögu og svo 15 ára drengur með fíknivanda sem hefur verið vistaður þar samkvæmt úrskurði síðan í desember. Hann á ekki heima í úrræði með hinum drengjunum, enda er hans vandi af allt öðrum toga, líkt og faðir hans hefur greint frá í samtali við mbl.is.

Drengurinn lauk hefðbundinni meðferð á Stuðlum síðasta haust, en þar sem ekkert langtímaúrræði hefur verið í boði fyrir drengi í tæpt ár, eða frá því meðferðarheimilinu Lækjarbakka var lokað vegna myglu, er vistun á Stuðlum eina skjólið sem honum býðst.

Starfseminni á Lækjarbakka hefur verið fundin staðsetning í Gunnarsholti á Rangárvöllum, en í samtali við mbl.is síðustu viku sagði Funi Sigurðsson, framkvæmdastjóri meðferðarsviðs Barna- og fjölskyldustofu, að meðferðarheimilið yrði í fyrsta lagi opnað í haust. Ráðast þarf í töluverðar framkvæmdir á húsnæðinu, en þær eru enn ekki hafnar. 

Eins og staðan er núna má því gera ráð fyrir því að ástandið á Stuðlum verði óbreytt næstu mánuði. Að áfram verði blöndun barna með ólíkan vanda og að drengir sem ljúki meðferð og greiningu komist ekki í langtímameðferð.

Jón Gnarr talar fyrir opnun Háholts

Jón Gn­arr, þingmaður Viðreisn­ar, hef­ur talað fyr­ir því að meðferðar­heim­ilið Há­holt í Skagaf­irði verði opnað aft­ur til að bregðast við úrræðal­eysi í mál­efn­um barna með fjölþætt­an vanda.

Um er að ræða hús­næði sem byggt var sér­stak­lega und­ir starf­semi meðferðar­heim­il­is, en því var lokað árið 2017. Undir það síðasta var þar öryggisvistun fyrir börn og unglinga.

Jón vill að það verði skoðað af al­vöru að meta kosti og galla þess að nýta Há­holt aft­ur í þess­um til­gangi. Húsnæðið stendur nú autt.

Bæði Funi og Ásthildur Lóa Þórsdóttir, mennta- og barnamálaráðherra, hafa sagt að þeim hugnist ekki að opna aftur meðferðarheimili í Háholti. Bera þau fyrir sig að fjarlægðin frá höfuðborgarsvæðinu sé of mikil, börnin væru langt frá ástvinum og að erfitt gæti reynst að fá faglært starfsfólk.

Þá sagði Funi að fjármagnið fyrir langtímaúrræði væri bundið í Gunnarsholti og ef opna ætti úrræði í Háholti þá þyrfti meira fjármagn.

Starfsfólkið væri til í að taka vaktir í Háholti

Innanbúðamaðurinn á Stuðlum telur fjarlægð Háholts frá höfuðborgarsvæðinu hins vegar hafa fleiri kosti en galla.

Það sem við eigum að einblína á húna er að opna Háholt og svo endurbæta Stuðla. Þangað eiga peningarnir að fara núna á meðan allt er í biðstöðu. Það er verið að setja fullt af pening í þetta, en þeir fara bara í eitthvað rugl.“

Hann segir drengina sem voru á Lækjarbakka á sínum tíma ekki hafa fengið marga heimsóknir, þrátt fyrir að meðferðarheimilið hafi aðeins verið í um 90 mínútna akstursfjarlægð frá Reykjavík.

Þá segist hann vita til þess að einhverjir starfsmenn af Stuðlum væru til í að fylgja drengjunum í Háholt og skiptast á að taka vaktir þar.

Með því færu erfiðustu einstaklingarnir annað og hægt væri að hefja aftur meðferðarstarf að nýju á Stuðlum, ásamt því að nýta starfsfólkið betur.

Stóð til boða að vera áfram á Vogi

Eftir að neyðarvistun Stuðla gjöreyðilagðist í bruna í október á síðasta ári, þar sem 17 ára drengur lést, fékk meðferðardeildin tímabundið inni á Vogi á meðan var verið að stúka af neyðarvistun til bráðabirgða inni á Stuðlum. Starfsemin hefði, að sögn mannsins, geta farið áfram fram á Vogi, en í staðinn hafi verið lögð áhersla að það af hálfu Barna- og fjölskyldustofu, að koma öllum inni aftur inn á Stuðla.

„Allur aðbúnaður og þjónusta á Vogi er miklu betri en uppi á Stuðlum,“ segir hann. Til að mynda hafi þau haft aðgang að hjúkrunarfræðingi.

„Við hefðum getað haldið áfram að vera á Vogi, en okkur var sagt að pakka saman, sem við og gerðum.“

Hefðbundin meðferðardeild var hins vegar ekki aftur opnuð á Stuðlum og hefur hefðbundin meðferð og greining ekki farið fram á Stuðlum eftir brunann. Þar hefur aðeins verið tekið á móti þyngstu tilfellunum í einhvers konar langtímaúrræði.

Algjört úrræðaleysi í þrjá mánuði

Starfsemin sem var á Stuðlum átti að færast yfir í Blönduhlíð í Mosfellsbæ í desember. Það kom hins vegar í ljós að húsnæðið stóðst ekki brunaúttekt, þrátt fyrir endurbætur, og ekki fékkst starfsleyfi.

Ásmundur Einar Daðason, fyrrverandi mennta- og barnamálaráðherra, þóttist engu að síður opna meðferðarheimilið fjórum dögum fyrir alþingiskosningar í nóvember.

Starfseminni hefur nú verið fundin tímabundin staðsetning á Vogi, fram að áramótum. Eitthvað sem stóð til boða strax í október. 

Fyrirætlanir um opnun meðferðarheimilisins í Mosfellsbæ, sem ekkert varð af, leiddu því af sér algjört úrræðaleysi í þrjá mánuði, eða þar til farið var að taka á móti skjólstæðingum á Vogi í febrúar. 

Drengir sem ljúka meðferð á meðferðarheimilinu á Vogi, sem í dag er kallað Blönduhlíð, komast hins vegar ekki í langtímameðferð í framhaldinu, líkt og áður hefur komið fram.

Maðurinn segir þetta algjöra vanvirðingu við börn sem þurfa á þjónustunni að halda.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert