Sigríður Friðjónsdóttir ríkissaskóknari segir að ekki verði tekin ákvörðun um það hvort leitast verði eftir áfrýjunarleyfi til Hæstaréttar fyrr en embættið hefur farið yfir dóm í hryðjuverkamálinu svokallaða.
Sakborningarnir tveir, Sindri Snær Birgisson og Ísidór Nathansson, voru sýknaðir í hryðjuverkaþætti málsins í Landsrétti fyrr í dag. Þeir fengu þó 15 og 18 mánaða dóm fyrir vopnalagabrot en það er vægari dómur en þeir fengu í héraði þar sem Sindri fékk tveggja ára dóm en Ísidór 18 mánaða dóm.
„Fyrsta skrefið er nú að fara vandlega yfir dóminn og þær röksemdir sem niðurstaða um sýknu byggist á. Í kjölfarið verður tekin ákvörðun um það hvort tilefni sé til að óska eftir áfrýjunarleyfi til Hæstaréttar,“ segir Sigríður í skriflegu svari til mbl.is.