Sigríður Júlía Brynleifsdóttir, bæjarstjóri Ísafjarðar, finnst líklegt að flugleiðin til Ísafjarðar verði boðin út með ríkisstyrk. Hún fundaði í morgun með Boga Nils Bogasyni, forstjóra Icelandair.
Fundinn sátu einnig bæjarstjóri Bolungarvíkur, sveitarstjóri Súðavíkur, framkvæmdastjóri Vestfjarðastofu og formaður fjórðungssambands Vestfirðinga og Tómas Ingason, framkvæmdastjóri tekju-, þjónustu og markaðssviðs Icelandair.
„Í rauninni snýst þessi ákvörðun þeirra um það að þeir eru að taka sína ákvörðun á viðskiptalegum forsendum. Þeir eru hins vegar tilbúnir til þess að vinna að því að finna einhverja lausn og kannski er Icelandair hluti af lausninni,“ segir Sigríður í samtali við mbl.is.
„Ég held að boltinn sé bara svolítið hjá ríkinu núna.“
Spurð um hvort frekari fundir séu á döfinni hvað málið varðar, hvort sem þeir yrðu með Icelandair eða öðrum aðilum, segir bæjarstjórinn að hún ætli að sjá hvert dagurinn leiði. Vestfjarðastofa sé t.a.m. að funda með Eyjólfi Ármannssyni samgönguráðherra í dag en sá fundur var í gangi er blaðamaður náði tali af Sigríði.
„Málið er á hreyfingu.
Ég held að þetta snúist um það að þessi flugleggur verði boðinn út og með ríkisstyrk. Ég held að það sé svolítið það sem fólk er að horfa á. Mér finnst mjög líklegt að það verði niðurstaðan,“ segir Sigríður að lokum.