„Ég er fædd og uppalin fyrir norðan, á Tjörn á Vatnsnesi í Vestur-Húnavatnssýslu. Mamma var að vestan, úr Gufudalssveit, og pabbi frá Glasgow.“
Þetta segir Jónína Guðrún Jack rannsóknarlögreglukona í samtali við Morgunblaðið. Reyndar betur þekkt sem bara Guðrún Jack, en líklega best, alla vega í ranni lögreglunnar, sem einfaldlega Gunna Jack.
Viðmælandinn man tímana tvenna í sögu íslenskrar löggæslu. Hóf störf í lögreglunni árið 1981 og var um árabil nær eini kvenkyns lögregluþjónninn í einkennisbúningi, eða „á götunni“ eins og Guðrún kallar það. Í raun réttri mætti segja að Guðrún Jack hafi komið við sögu lögreglunnar – og rúmlega það.
Vatnaskil eru fram undan í lífi lögreglukonu til rúmra fjögurra áratuga. Lögum samkvæmt fara íslenskir lögreglumenn á eftirlaun 65 ára gamlir og Guðrún, sem er í þennan heim borin 3. mars 1960, fagnaði sínu 65 ára afmæli á mánudaginn. Starfa má út afmælismánuðinn samkvæmt lagabókstafnum svo nú styttist í að rækilega verðskulduð sól eftirlaunaáranna vermi ásjónu Guðrúnar.
„Ég byrjaði reyndar ekki fast fyrr en 1982,“ segir Guðrún, „ég var í nokkra mánuði 1981, en bróðir minn dó í sjóslysi um haustið það ár, þá hætti ég og fór vestur þar sem ég var með ekkjunni og börnunum þeirra þremur.“
Ber Guðrún fastanúmerið 8212 með stolti, en fyrstu tveir tölustafir númera íslenskra lögregluþjóna mynda ártalið sem þeim veittist föst staða. Fram að því eru þeir afleysingamenn, héraðslögregluþjónar í lögum og reglum, H-menn í daglegu tali stéttar sem smíðað hefur sér viðurnefni og gælunöfn yfir velflest fyrirbæri.
Hver var aðdragandi þess að þú fórst í lögregluna – alræmda karlastétt á þessum tíma?
„Sko, ég var frekar óþekk og villt og pabbi, sem var prestur frá Skotlandi, var ekkert alveg sáttur við það,“ svarar Guðrún og vottar fyrir auðheyrðu brosi í gegnum símann. Guðrún er dóttir séra Róberts Jack heitins sem líklega var einn fyrsti þjóðþekkti innflytjandi Íslands.
Séra Róbert starfaði nær alla sína ævi á Íslandi, kom upphaflega til landsins árið 1936 sem knattspyrnuþjálfari Vals, fyrir atbeina Alberts Guðmundssonar heitins, knattspyrnumanns og síðar fjármálaráðherra og viðskiptaráðherra.
Róbert nam guðfræði við Háskóla Íslands og lauk þaðan embættisprófi lýðveldisárið 1944. Gerðist hann í framhaldinu sóknarprestur að Heydölum í Breiðdal, þá í Grímsey, í byggðum Vestur-Íslendinga í Manitoba í Kanada og loks á Tjörn á Vatnsnesi þar sem Guðrún fæddist þeim hjónum, séra Róbert og Vigdísi Jack sem lést nú í endaðan febrúar, 95 ára gömul. Var séra Róbert sóknarprestur á Tjörn um þriggja áratuga skeið og síðar prófastur Húnavatnsprófastdæmis.
Séra Róbert Jack lést snemma árs 1990, í febrúar.
Aðkoma skoska prestsins að rúmlega 40 ára ferli dótturinnar í lögreglunni var með þeim hætti að bæjarfógetinn – sem þá hét – í Kópavogi var kunningi séra Róberts. „Pabbi talaði við hann og spurði hann hvort hann gæti ekki komið mér í lögregluna með það í huga að ég myndi róast,“ segir Guðrún frá án þess að sögunni fylgi hvort sú hefði orðið raunin er upp var staðið.
Í stað þess er hún spurð örlítið nánar út í foreldra sína og uppvaxtarárin á Tjörn. „Mamma fór sem ráðskona til hans þegar hann var orðinn ekkjumaður með fjögur lítil börn. Mamma átti þá einn strák og var með pabba fyrst í Grímsey og svo þessi tvö ár í Kanada. Svo koma þau til Íslands og þá varð hann prestur á Tjörn, ætli það hafi ekki verið 1955 eða þar um bil,“ segir Guðrún frá.
Foreldrar hennar eignuðust svo fimm börn saman svo systkinin voru tíu, fimm hálf- og fimm alsystkini. „Öll hálfsystkinin mín fimm eru látin, en við erum öll á lífi alsystkinin,“ segir Guðrún og bætir því við aðspurð að aldursmunurinn í systkinahópnum hafi mestur verið 20 ár.
„Í raun átti ég aldrei samleið með pabba,“ segir Guðrún – talandinn hægur og varfærnislegur – þegar blaðamaður spyr hana hvernig maður séra Róbert Jack hafi verið. „Hann var bara prestur og í mínum augum var hann dálítið snobbaður. Mamma var hins vegar kletturinn og gott betur. Hún var bóndi og hún sá um uppeldið og gerði allt, hún var bara ofurkona,“ segir rannsóknarlögreglukonan og uppveðrast öll við að ræða um móður sína sem hún fylgdi til grafar tveimur dögum áður en það samtal átti sér stað er varð að þessu viðtali.
Þá hafi menningarmunur heimsborgarinnar Glasgow og Vestur-Húnavatnssýslu heldur betur vitrast heimilisfólki á Tjörn þegar föðuramma Guðrúnar mætti á svæðið og bjó þar síðustu árin, hreinræktuð afurð hins breska heimsveldis á 19. öld, en séra Róbert var fæddur árið 1913. „Þá þurfti maður alltaf að segja „can I be excused“ þegar maður stóð upp frá borðum og það var ekki alveg „my cup of tea“,“ segir Guðrún af fullkominni hreinskilni.
„Þegar stríðið skall á, seinni heimsstyrjöldin, komst pabbi ekki til baka til Skotlands og fór þá í guðfræði í Háskólanum, kynntist fyrri konunni sinni og átti með henni fjögur börn, en hún lést úr krabbameini þegar þau voru í Grímsey,“ heldur hún áfram af prestinum og knattspyrnuþjálfaranum þjóðþekkta.
Guðrún gekk í Laugabakkaskóla í Miðfirði, „en svo fórum við öll systkinin á Hlíðardalsskóla á Ölfusi í Árnessýslu sem var einkaskóli og á þessum tíma eini kristni skólinn á landinu. Við vorum öll send þangað,“ segir hún frá og kveður vistina hafa verið góða í skólanum, nemendur fóru aðeins heim um jól og páska.
„Þangað voru vandræðabörn send á vegum borgar og bæja og við hin, góðu börnin, innan gæsalappa, eins og til dæmis prestsbörnin frá Tjörn, áttum að hafa góð áhrif á þessa krakka, en ég veit ekki alveg hversu góð áhrif ég hafði,“ segir Guðrún og hlær dátt. Í Hlíðardalsskóla var nemendum boðið upp á að taka eitt og hálft ár af framhaldsskólanámi á staðnum, að loknu gagnfræðaprófi. Var það Menntaskólinn í Hamrahlíð sem stóð að baki þess framboðs.
Guðrún tók hluta af framhaldsskólanáminu sem í boði var áður en hún flutti til höfuðborgarinnar og innritaðist í Fjölbrautaskólann í Breiðholti þaðan sem hún varð stúdent árið 1980.
„Ég var bara dálítið villt og ef ég hugsa til baka var ég bara með bullandi mótþróaþrjóskuröskun og ADHD,“ segir Guðrún hugsi og nefnir skammstöfunina frægu sem enginn á Íslandi hafði heyrt á áttunda áratug síðustu aldar. „Maður hugsaði bara ekkert um það þá. Núna er allt greint, ef maður skellir hurðum þá heitir það eitthvað,“ bætir hún við með aðkenningu að hlátri.
Mörgum reyndist happadrjúgt, áður en tekið var að ávísa lyfjum við ofvirkni, að veita henni útrás með einhvers konar athafnasemi og það gerði Jónína Guðrún Jack svo eftir var tekið.
„Mér fannst rosalega gaman að slást,“ segir hún og leggur þunga áherslu á orðið „rosalega“, „ég æfði júdó og fór svo til Bandaríkjanna í eitt ár til að æfa „street fight“. Ég lyfti líka mjög mikið, var í ólympískum lyftingum og æfði í Engihjallanum hjá Óskari Sigurpálssyni,“ segir hún, en þau Óskar voru samskipa í lögreglunni um langt árabil. Hann hafði þá gert garðinn frægan sem fyrsti Íslendingurinn til að keppa í lyftingum á Ólympíuleikum – í Mexíkóborg 1968 og aftur keppti hann í München 1972 ásamt Guðmundi Sigurðssyni.
„Ég var líka í Orkubót og eiginlega bara í öllum þessum stöðvum þegar þetta var að byrja,“ rifjar Guðrún upp og vísar til þeirrar Orkubótar sem bræðurnir Viðar og Sveinbjörn Guðjohnsen opnuðu á Grensásvegi árið 1980. „Og svo fannst mér mjög gaman að fara út að skemmta mér, ég fór í Hollywood, Klúbbinn og Sigtún,“ telur lögreglukonan upp og um blaðamann fara hlýir straumar ljúfsárra æskuminninga þótt hann hefði reyndar aðeins náð að setja fót inn fyrir dyragætt Hollywood í Ármúlanum af þessum þremur stöðum.
Blaðamaður spyr út í ársdvölina í Bandaríkjunum þar sem Guðrún var búsett um eins árs skeið, hjá íslenskri konu, Sigrúnu Simons, sem gift var bandarískum bæklunarskurðlækni, George Simons. „Þetta var í Milwaukee í Wisconsin og ég var svona „eins konar au-pair“, var þarna í heilt ár.“
Það er komið að öllum þessum ferli í lögreglunni í samtali okkar, næstum hálfri öld. „Ég ætlaði bara að vera stutt,“ segir Guðrún, gömul og ný saga fólks sem ílengist svo í áratugi í starfi, „ég gerði þetta eiginlega bara fyrir pabba,“ bætir hún við og er spurð út í fyrstu vaktina í lögreglunni.
„Úff, hvað heldurðu að ég muni það? Jú, ég man að ég fór í útkall á maríu [gömlu svörtu og hvítu Ford Econoline-lögreglubifreiðunum sem eldri lesendur muna vafalítið mætavel eftir] og við sóttum barnaverndarstarfsmann, útkallið var vegna barnaverndarmáls. Og ég man að hún leit á mig og leit svo á lögreglumanninn sem keyrði og sagði: „Það er alveg furðulegt þegar er farið að dubba fermingarbörn upp í lögregluföt.“ Ég varð svo móðguð að ég hefði getað lamið hana!“ segir Guðrún og gefur raddblærinn sterklega til kynna að þetta hefði vel getað gerst í útkallinu árið 1981.
Enn fremur man hún vel eftir umferðarslysi á gatnamótum Borgarholtsbrautar og Urðarbrautar á Kársnesinu í Kópavogi. „Þar slasaðist ökumaður og mér var sagt að fara út á gatnamótin og stjórna umferð og það kunni ég ekkert. Ég rifjaði þá upp leiðbeiningarnar sem voru á þessum tíma alltaf í símaskránni með teikningum af lögreglumanni sem var að stýra umferð og ég gerði bara svoleiðis. Og þetta bjargaðist einhvern veginn,“ segir Guðrún og hlær innilega að minningu um atvik sem hún hló líklega ekki mikið að meðan á stóð.
„Ég var eina konan í lögreglunni í Kópavogi og við höfum kannski verið þrjár á öllu landinu. Við vorum þrjár konur sem útskrifuðumst úr Lögregluskólanum í hópnum mínum, ég útskrifaðist '86 minnir mig og þetta var stíft nám á þessum tíma,“ segir Guðrún frá og er spurð nánar út í skólann sem þá var aldeilis ekki kominn upp á Krókháls eins og síðar varð.
„Nei nei nei,“ segir Guðrún, „skólinn var bara niðri á Hverfisgötu, á lögreglustöðinni. Ég man að við fengum einhverja utanaðkomandi kennara, til dæmis íslenskukennarann, en fyrir utan það voru það mikið til starfandi lögreglumenn sem kenndu, rannsóknir á umferðarslysum kenndu menn frá SRD, slysarannsóknardeild sem þá var og hét, og svo komu kennarar frá útlöndum, sérfræðingar sem voru að kenna okkur að taka upp fótspor og fingraför,“ segir þessi gamalreynda lögreglukona af lögreglunámi á Íslandi fyrir fjórum áratugum.
Ekki hafi þó allt verið tekið út með sældinni rifjar Guðrún upp. Víkingasveitin, sem þá var kölluð í daglegu tali, var stofnuð um það leyti sem hún hóf störf í lögreglunni, er stofndagur sveitarinnar 19. október 1982. Fyrstu íslensku sérsveitarmennirnir æfðu með sérsveit norsku lögreglunnar, Delta, en stofnun íslensku sveitarinnar hafði verið til umræðu í nokkur ár, einkum eftir að fimm króatískir aðskilnaðarsinnar rændu Boeing 727-farþegaþotu í innanlandsflugi í Bandaríkjunum 11. september 1976, neyddu flugmennina til að fljúga út fyrir Bandaríkin og millilentu á Íslandi til að taka eldsneyti. Þá hafði þýska lögreglan stofnað sérsveitina GSG-9 í kjölfar árásar palestínsku hryðjuverkasamtakanna Svarts septembers á Ólympíuleikunum í München haustið 1972.
Það sem var ekki tekið út með sældinni af hálfu nemenda Lögregluskóla ríkisins um miðjan níunda áratug síðustu aldar hafði hins vegar ekkert með hryðjuverk að gera. „Sérsveitin æfði sig á okkur. Þeir létu okkur hlaupa út um allar koppagrundir og endaði með því að einn nemandi skólans skrifaði á rúðuna á aðstöðu víkingasveitarinnar „Fokk the víkingasveit“ og við fengum sko heldur betur að kenna á því eftir þetta, þeir píndu okkur út í hið óendanlega. Og ég ætla ekki að segja þér hver þetta var sem skrifaði þetta, hún er enn þá starfandi,“ segir Guðrún lymskulega og glottið heyrist nánast gegnum símann.
Hvað réð því hvenær afleysingalögreglumenn voru sendir í skólann á þessum tíma?
„Það var bara undir lögreglustjóranum í Reykjavík komið og sýslumönnum utan Reykjavíkur. Þú varst bara á vegum þeirra og það voru þeir sem réðu hverjir voru sendir og hverjir ekki. Þú sóttir ekkert um eitt eða neitt,“ segir Guðrún sem kveðst hafa ákveðið að þiggja skólavistina þegar bæjarfógetinn í Kópavogi kvað upp þann úrskurð að hennar tími væri kominn. „Þá var ég búin að vera það lengi í löggunni að ég ákvað bara að drífa mig,“ segir hún. Þannig var það.
Hvernig var svo að vera kona í lögreglunni fyrir 40 árum í hreinu karlaveldi?
Rannsóknarlögreglukonan meltir spurninguna í stuttri þögn. „Ég náttúrulega var úr sveit og ég var nokkuð dugleg að svara fyrir mig. Ég hugsa að ég hefði bara ekkert lifað það af ef ég hefði bara verið einhver viðkvæm mús, það hefði bara ekkert gengið upp,“ svarar Guðrún og er greinilega skemmt við upprifjunina. „Þú þurftir bara að bíta frá þér,“ heldur hún áfram – nú öllu alvarlegri í bragði. „Þetta var alveg ofboðslegt karlasamfélag, alveg gríðarlegt,“ segir hún og kveður þennan karlaheim sem lögreglan var þó hafa átt sér tvær hliðar.
„Sumir voru ofboðslega góðir við mig og pössuðu mig eins og ég væri dóttir þeirra. Kannski einum of meira að segja. Aðrir voru...,“ Guðrún hikar. Spurningin er ekki auðveld. Hún tekur nýtt aðflugshorn. „Ég er bara glöð að horfa á kvenfólk í lögreglunni í dag sem hefur svona margar konur við hlið sér. Maður var bara eiginlega einn. Ég er ekkert að segja að það hafi verið slæmt. En þú gast aldrei speglað þig við neinar konur, það var enginn sem þú gast samsamað þig við, þú þurftir bara að kyngja því og svara fyrir þig. Þú hafðir ekkert val,“ segir Guðrún.
Aðspurð kveður hún yfirmenn flesta hafa verið ágæta á níunda áratugnum. „Það voru svo sem engin samskipti við yfirstjórnina. Á þessum tíma var svona goggunarröð sem er vissulega enn þá til staðar, en þetta var miklu meira áberandi þá en núna. Manni var bara kennt frá upphafi að bera virðingu fyrir til dæmis varðstjórunum á vaktinni. Núna er búið að gjaldfella varðstjóratitilinn alveg niður í núll.
Krakkar sem eru kannski 25 ára og með fjögurra ára starfsreynslu eru varðstjórar. Í gamla daga voru þetta menn með margra ára reynslu sem vissu nákvæmlega hvað þeir voru að gera. Maður mótmælti þeim ekkert. Maður hafði bara enga skoðun og sagði bara já. Ég er ekkert að segja að þetta hafi verið eitthvað slæmt, en svona var þetta bara þá,“ segir Guðrún.
Hún segist engan veginn hafa hlotið nokkuð slæmt af því annálaða karlaveldi sem hún uppfóstraðist við á vinnumarkaði, öðru nær. „Allir voru mjög góðir við mig og vildu mér allt það besta,“ er dómurinn þegar litið er yfir löngu farinn veg. Ekki síst eru sumurin Guðrúnu minnisstæð þegar hrist var upp í mannskapnum með sumarafleysingamönnum sem oftar en ekki voru háskólanemar.
„Þetta voru oft guðfræði-, lögfræði- og læknisfræðinemar sem fóru í sumarlögregluna og mér fannst það alltaf rosalega gaman því þeir voru á svipuðum aldri og ég,“ segir Guðrún glettin, „í þá daga var samt eiginlega ekkert um stelpur, þetta voru allt strákar. Ég vann til dæmis með Palla Winkel í Kópavoginum,“ segir lögreglukonan og minnist starfa með helsta átoríteti fangelsismála á landinu fjölmörg síðustu ár og talið berst þar með að eftirminnilegum vinnufélögum í lögreglunni.
„Guðmundur Ingi Ingason vinur minn var mjög eftirminnilegur karakter og skemmtilegur, varðstjóri í Kópavogi, hann dó í fyrra,“ segir Guðrún frá og segir Guðmund Inga hafa verið fyndna manngerð sem mest mátti vera. „Hann var mikill um sig og tæpir tveir metrar á hæð. Við stöðvuðum einhvern tímann mann fyrir ölvun við akstur og Gummi ríghélt í hann. Maðurinn sagði honum að þetta væri alveg óþarfi og spurði hvers vegna Gummi héldi svona í hann og Gummi svaraði þá: „Finnst þér ég líklegur til að geta hlaupið á eftir þér ef þú ætlar að stinga mig af?“ og þá leit maðurinn á hann og sagði honum þá bara að halda sér áfram,“ segir Guðrún og hlær.
„Einhvern tímann sat hann svo og var að lesa blaðið inni á stöð og rak svo upp skellihlátur. Ég spurði hann hvað væri svona fyndið og hann spurði þá hvort pabbi minn væri orðinn leiður á mér og ég fattaði ekkert hvað hann átti við. Þá sagði hann: „Æ, það stendur hérna í blaðinu skosk-íslensk tík fæst gefins,“ og mér fannst þetta nú bara rosalega fyndið. Svona var Gummi – og svo keypti hann aldrei neitt nema það væri á tilboði og spurði alltaf úti í sjoppu: „Jæja, hvað áttu á tilboði?“ Ég kallaði hann Guðmund McGregor til að gera grín að nískunni í honum,“ lýkur Guðrún frásögn sinni af varðstjóranum eftirminnilega.
Þá hugsar hún með mikilli hlýju til Magnúsar Einarssonar sem varð yfirlögregluþjónn í Kópavogi eftir að Guðrún færði sig yfir til lögreglunnar í Reykjavík sem þá hét. „Hann kenndi mér í Lögregluskólanum og sagði að lögreglumenn ættu að hafa „meitlað andlit og frosið bros“. Magnús var alveg frábær, hann var reffilegur karl sem hélt uppi aga og ég bar mikla virðingu fyrir. Mér finnst þetta vanta dálítið í lögregluna í dag, aga og reffilegheit, núna er þetta bara...já, bara öðruvísi, það eru breyttir tímar,“ segir Guðrún, minnug gamalla tíma, en tekur sérstaklega fram að hún sé þó alls ekki í „allt-var-betra-í-gamla-daga“-hópnum, margt sé mun betra nú til dags.
Árið 2002 tók hún við stöðu rannsóknarlögreglumanns, fyrst í forvarnadeild sem síðar var lögð niður. Hún segir álag á rannsóknarlögreglumenn gríðarmikið, eins og á aðra lögreglumenn. „Það er langbest að rannsaka mál á meðan þau eru fersk, ekki ársgömul. Maður þarf að forgangsraða málum, ef þú ert með 60 mál á borðinu hjá þér er það alveg augljóst,“ segir hún. Fjöldi mála sé hreinlega lagður niður.
Blaðamaður minnist á að hafa einhvers staðar á óravíddum lýðnets og samfélagsmiðla rekist á harðorðan pistil svekkts borgara sem skrifaði að það væri einfaldlega tímasóun að kæra reiðhjólaþjófnaði til lögreglu nú orðið, þetta rótgróna og klassíska afbrot ef svo mætti segja.
„Líf og limir ganga fyrir,“ segir Guðrún – svar sem fullkomlega mátti vænta. „Hjól í dag eru orðin rándýr og auðvitað er þetta sársaukafullt, en þetta er einmitt eitt af því sem lendir aftarlega í forgangsröðinni. Það er bara þannig,“ segir hún.
Viðmælandi sem starfað hefur við löggæslu í hartnær hálfa öld sleppur vitaskuld ekki við spurninguna um stöðu íslenskrar löggæslu nú um stundir. Hvað þykir Guðrúnu þar?
„Lögreglan stendur ekkert vel að vígi. Það er eitthvað aðeins að lagast núna svo sem, en lengi vel var stór hluti lögreglumanna ómenntaður,“ svarar hún og á þar við skólun í lögreglufræðum. „Það er bara alls ekki gott auk þess sem mönnun lögreglu er ekki í neinu samræmi við verkefnafjölda og mannfjölda samfélagsins. Ég las einhvers staðar nýlega að það vantaði 200 lögreglumenn á höfuðborgarsvæðinu miðað við fólksfjölda,“ heldur Guðrún áfram.
Bendir hún á að vopnaburður hafi aukist svo jafna megi við veldisvöxt auk þess sem fjölmenningarsamfélagið lúti nýjum lögmálum. „Við verðum að vera reiðubúin til að takast á við það. Hingað eru að koma erlendir afbrotahópar eingöngu til að brjóta af sér,“ segir Guðrún ómyrk í máli og nefnir einnig stóraukna fíkniefnaneyslu og skipulagða brotastarfsemi.
„Álagið hefur breyst. Áður þurftirðu varla túlk til að yfirheyra aðila, nú er það daglegt brauð. Hefðirðu spurt mig út í það fyrir 20 árum hefði ég talið það óhugsandi. Flækjustigið er orðið miklu meira, þetta eru ekki bara önnur tungumál, þetta er líka allt önnur menning,“ segir lögreglukonan og gagnrýnir í framhaldinu sífelldar símaupptökur almennings á vettvangi mála.
„Fólk áttar sig ekki á því að það er kannski að taka upp verstu augnablik í lífi annarrar manneskju, einstaklings sem lögregla er að hafa afskipti af. Getur fólk ekki séð sóma sinn í því að láta af þessu. Mér finnst þetta bara virkilega ljótt,“ segir sveitastúlkan fyrrverandi frá Tjörn hvassri röddu. „Svo segir fólk að löggan sé harðhent og er alltaf tilbúið að dæma lögguna – en hvað gerði það sjálft?“ spyr hún í áleitnum tón.
Svona að lokum, hvernig er þér innanbrjósts þegar þú lítur til baka yfir allan þennan feril og allt það sem þú hefur séð og upplifað?
Guðrún Jack sér ekki eftir neinu, játar þó að hana hafi einhvern tímann langað í læknisfræði. „Ég var með ADHD, ég var villingur, mér fannst gaman að skemmta mér og gaman að slást og ég þurfti utanumhald sem var náttúrulega ekki að hafa þegar foreldrar manns bjuggu í sveit og ég var sjálfala í bænum,“ segir Guðrún sem kannski hefði hætt í lögreglunni hefði alvarlegur atburður ekki sett mark sitt á líf hennar.
„Ég eignaðist stelpu 1989 og hún veiktist mjög alvarlega 1991 og fór á spítala, hún var á spítala í sjö ár þannig að ég festist svolítið í lögreglunni. Ég var ríkisstarfsmaður á vöktum og það hentaði mér vel. Ég fékk mér au-pair til að hugsa um stelpuna og þetta var mjög erfitt tímabil. Þess vegna hélt ég áfram og svo einhvern veginn bara leið tíminn,“ segir hún, nú komin fast að eftirlaunum. Og hvernig ætli það tímabil horfi við henni?
„Mér finnst þetta dálítið skrýtið, eiginlega mjög skrýtið og ég á erfitt með að lýsa þessari tilfinningu. En maður á bara að horfa fram á við, maður á ekkert að horfa í baksýnisspegilinn. Horfa á það sem maður á og það sem maður hefur og bara læra að njóta þess. Ég hef unnið mjög mikið síðustu árin,“ segir Jónína Guðrún Jack að lokum, prestsdóttirin sem sett var til lögreglustarfa árið 1981 til að knýja öra lund hennar til kyrrðar.