Sveinn Andri Sveinsson, verjandi Sindra Snæs Birgissonar í hryðjuverkamálinu, segir að Sindri og Ísidór Nathansson muni sækja rétt sinn gagnvart ríkinu. Hann segir dóm Landsréttar merkilegan og að hann verði skoðaður í refsirétti í framtíðinni. Þá sé hann einnig mikil lexía fyrir lögregluna.
Sindri Snær Birgisson og Ísidór Nathansson voru fyrir skömmu aftur sýknaðir af tilraun til hryðjuverkja, nú fyrir Landsrétti.
Þá voru fangelsisrefsingar þeirra beggja skertar frá lægra dómstigi.
„Þetta er fyrst og fremst mikil ánægja fyrir hönd míns umbjóðenda og mín eigin. Þessu stríði er nokkurn veginn lokið og þetta er bara rétt niðurstaða,“ segir Sveinn Andri þegar hann er inntur eftir viðbrögðum í Landsrétti.
„Það er gott að fá þetta staðfest eftir allan þennan tíma og þessa martröð sem þessir drengir eru búnir að ganga í gegnum,“ bætir hann við.
„Það sem náttúrulega blasir við að þeir muni gera er að sækja sér rétt gagnvart ríkinu.“
Það verður farið í það?
„Já, algjörlega,“ segir hann.
„Það verður bara þegar þetta er búið að setjast og áfrýjunarfrestir liðnir,“ bætir hann við, spurður hvenær það verði gert.
„Þetta er merkilegur dómur og mun vera skoðaður í þessum refsiréttarpælingum framtíðar,“ segir verjandinn og heldur áfram:
„Þarna reynir í fyrsta sinn á þetta hryðjuverkaákvæði og síðan eru þarna ákveðnar línur sem Landsréttur leggur gagnvart tilraunaákvæðinu í hegningarlögunum.“
Þá segir hann dóminn vera góða og fína lögfræðilega lexíu og mikla lexíu fyrir lögregluna.
„Þeir hefðu betur ekki farið af stað í þetta ferli.“
Sveinn hefur áður gagnrýnt rannsókn lögreglunnar í málinu. Spurður um framgöngu lögreglunnar segist hann vita til þess að innan lögreglunnar séu „margir mjög ósáttir“ við framgöngu hennar í málinu.
Áttu von á að þessu verði áfrýjað til Hæstaréttar?
„Ég veit það ekki. Undir venjulegum kringumstæðum myndi ég segja nei en lengi skal manninn reyna í þessu máli.“