„Skorinort er það þannig að þetta er ekki eitthvað sem er sárasjaldgæft, að sjá erni yfir Reykjavík,“ segir Gunnar Hallgrímsson, prófessor í dýrafræði við Háskóla Íslands, í samtali við mbl.is um örn sem sást svífa þöndum vængjum yfir höfuðborginni, nánar tiltekið Geldinganesi, í síðustu viku og var það Skarphéðinn Snorrason sem birti hana í áhugamannahópnum Fuglar á Íslandi á Facebook.
„Ég var að viðra hundinn og ákvað að taka myndavélina með ef ég sæi eitthvað áhugavert,“ segir Skarphéðinn við mbl.is um aðdraganda myndatökunnar.
Prófessorinn heldur áfram:
„Þetta er þó ekki dagleg sjón, en arnarstofninn hefur verið í hægum en öruggum vexti og með tímanum hefur það gerst að þeir eru farnir að sjást oftar í bænum – og kannski víðar um landið,“ segir Gunnar, staddur í Sandgerði að merkja máva.
Kveður hann það áhugavert þegar ernir sjáist yfir byggð, „þeir eru í eðli sínu styggir þannig að þeir sem komast í gott færi við örn eru heppnir“, segir hann og svarar þeirri spurningu játandi að vísindamenn hafi glöggt auga með arnarstofninum á Íslandi sem nú telji 90 varppör.
„Náttúrufræðistofnun Íslands vaktar arnastofninn í samstarfi við aðra aðila. Það er fylgst með fjölda varppara og varpárangri og svo er líka fylgst töluvert með ferðum ungfuglanna með því að setja á þá senditæki og það er meðal annars út frá þeim tækjum sem við höfum séð að þeir koma hérna reglulega inn á höfuðborgarsvæðið,“ segir Gunnar.
Hann segir varpstofninn hafa verið bundinn við vestanvert landið og sé Breiðarfjörður hjarta varpútbreiðslunnar. „Algengast er að ernir verpi í hólmum og eyjum, annað en fálkar sem velja sér gjarnan háa kletta.“
Ernir eru heimakærir að sögn Gunnars. „Hann er algjör staðfugl, en það sem gerist er að fullorðnu fuglarnir halda sig við óðulin sín árið um kring. Ungu fuglarnir fara hins vegar á flakk um landið og fara langan veg milli landshluta, þeir sjást um allt land. En ernir fara ekki af landi brott,“ útskýrir hann og er spurður frekar út í stofninn. Hvað veldur því að hann fer stækkandi?
„Stofninn er að rétta úr kútnum eftir miklar ofsóknir á sínum tíma, svo var örninn friðaður hér og síðan hefur stækkun stofnsins verið stöðug og vonandi heldur það bara áfram. Stofnstærðin fór niður fyrir 20 pör á landinu þegar minnst var, örninn var í mjög mikilli útrýmingarhættu. En hann er enn þá sjaldgæfur varpfugl á Íslandi,“ segir Gunnar Hallgrímsson, prófessor í dýrafræði við Háskóla Íslands og fuglafræðingur að undirtitli.