Landhelgisgæslan hefur á undanförnum árum lagt aukinn þunga í vöktun sæstrengja við Ísland, segir Georg Kr. Lárusson forstjóri Landhelgisgæslunnar í samtali við Morgunblaðið. Hefur Gæslan orðið vör við umferð óþekktra skipa á hafinu við landið.
Stofnunin hefur vaktað siglingar svokallaðs skuggaflota, sem er í raun skip á vegum Rússa. Þau sigla undir fánum annarra ríkja, eru mörg hver illa búin og úr sér gengin. Gefa þau gjarnan upp rangar staðsetningar og villa þar með um fyrir löggæslu og eftirlitsaðilum, segir Georg.
Um er að ræða eftirlit með fjarskiptasæstrengjum sem tengja Ísland við önnur lönd og eru gríðarlega mikilvægir fyrir Íslendinga. Rof á fjarskiptasambandi, hvort sem það er stutt eða langt, getur haft í för með sér verulegt tjón og óhagræði fyrir einstaklinga, fyrirtæki og efnahag landsins.
Að sögn Georgs er ekki vitað í hvaða tilgangi umrædd skip eru á siglingu á hafsvæðinu umhverfis Ísland. Skipin hafa verið á siglingu utan íslenskrar landhelgi (12 mílur) en innan efnahagslögsögunnar (200 mílur) og því á alþjóðlegu hafsvæði.
Skip af þessu tagi hafa einnig verið á ferðinni í breskri lögsögu, sem og undan ströndum nágrannaþjóða í Skandinavíu. Þá hafa Rússar verið sakaðir um að standa að skemmdarverkum á sæstrengjum í Eystrasalti og víðar.
Lesa má nánar um málið í Morgunblaðinu í dag