Hættulegustu gatnamót Reykjavíkur eru Miklabraut við Grensásveg og Miklabraut við Kringlumýrarbraut, og algengt að ökumenn taki „skjáhættur“ of reglulega.
Lang flest slys og óhöpp – bæði með og án meiðsla – verða á gatnamótunum við Miklubraut og Grensásveg. Þá verða flest slys með meiðslum við Miklubraut og Kringlumýrarbraut.
„Við erum með blandaða umferð þarna. Gangandi, fólk á hjólum og hlaupahjólum og svo akandi,“ segir Hrefna Sigurjónsdóttir, verkefnastjóri forvarna hjá Sjóvá, í samtali við mbl.is.
Hún segir markmið Sjóvá vera að nýta umhverfisskilti til að koma mikilvægum skilaboðum til vegfarenda, á stöðum þar sem fólk þarf að vera sérstaklega vakandi í umferðinni.
Tryggingarfélögin eru með tölur um tjón á þessum gatnamótum – Miklubraut við Grensásveg og Miklubraut við Kringlumýrarbraut – og að sögn Hrefnu eru þær ansi háar.
Tölur Sjóvá fyrir árið 2024 sýna í kringum 140 skráð tjón, bara á þessum tveimur gatnamótum, segir Hrefna tölurnar hafa verið svipaðar árin áður.
„Svo ef maður skoðar bút úr miklu brautinni – sem er aðal umferðaræð borgarinnar – þá voru 336 tjón á ákveðnum vegakafla þar á síðasta ári, sem er um eitt á dag.
Þannig að við sjáum að þetta eru varasamir staðir, enda er mikil umferð þarna.“
Samgöngustofa gefur reglulega út skýrslu þar sem farið er yfir þessi mál og styðst nýjasta skýrslan þeirra við tölur frá árabilinu 2019 til 2023.
Hrefna bendir á að tölurnar sem Samgöngustofa styðst við séu frá lögreglunni og árekstur.is – ekki frá tryggingarfélögum – því sé ákveðin vanskráning talna, sem Samgöngustofa viti þó af, og ekki um alhæfingargildi að ræða.
„Tölurnar gefa samt hugmynd um hvaða staðir eru varasamir,“ bætir Hrefna við.
Þær sýna að flest slys og óhöpp á gatnamótum í þéttbýli verði við gatnamótin við Grensásveg og Miklubraut, gatnamótin við Kringlumýrarbraut og Miklubraut fylgja þar í kjölfarið.
„Ef skoðuð eru gatnamót með flest slys með meiðslum á þessu tímabili, að þá eru gatnamótin við Kringlumýrarbraut og Miklubraut efst og Grensásvegur við Miklubraut þar á eftir.
Þannig að það eru svona þessi tvö sem að eru hættulegust.“
Að sögn Hrefnu verða um 65% þessara tjóna þegar ekið er aftan á aðra bifreið.
„Við viljum meina að það geti oft verið bara af því að fólk er ekki með athyglina alveg við það sem það er að gera,“ segir hún og bætir við að Sjóvá og Samgöngustofa hafi staðið fyrir herferð sem heiti Ekki taka skjáhættuna, og finna má á skjahaetta.is, þar sem fróðleik og ábendingar fyrir ökumenn er meðal annars að finna.
Þá segir hún gaman að segja frá því að orðið skjáhætta hefur verið skráð hjá Árnastofnun og er því orðið hluti af íslenskri tungu.
Skert athygli ökumanna skrifast mikið á snjalltækin sem fólk notar undir stýri.
„Lögreglan talar um að það sé alltof algengt að fólk sé að fikta í símanum undir stýri, það dreifi athyglinni, og alþjóðaheilbrigðismálastofnun talar nú einnig um að skert athygli sé ein helsta ógnin í umferðinni“
Þá segir Hrefna rúm 10% þessara tjóna verða þegar fólk er að skipta um akrein, „sem er í sjálfu sér mjög varasöm hegðun en er líka algjör óþarfi, þú ert yfirleitt ekkert að komast mikið hraðar þegar þú gerir þetta af því að umferðin hefur bara sinn takt.“
Hrefna segir of mörg umferðarslys hafa orðið yfir landið á síðasta ári, mun fleiri slys en árinu áður, og tölurnar hafi ekki verið fallegar.
Fjöldi slysa á síðasta ári var 5.854 samtals. Fjöldi slasaðra og látinna var 984 manns, en þar af voru 13 sem létu lífið í umferðarslysi.
Hrefna minnir á að minni slys, sem rata ekki endilega til lögreglunnar eða samgöngustofu, geti samt verið mjög dýr.
„Það er mjög dýrt að lenda í tjóni og laga bíla, fyrir utan vesenið og leiðindin.“
Ætlun skiltanna er að benda fólki á að það sé að nálgast varasöm gatnamót þar sem mikið hefur verið af tjónum, þannig vill Sjóvá tryggja öruggari umferð.
„Við erum statt og stöðugt alltaf að leita leiða til að ná til fólks með forvarnarskilaboð og þetta er svona hluti af því. Við erum auðvitað að gera fullt af öðrum hlutum líka en þetta er svona eitthvað sem að við erum að athuga núna af því að þetta er svo áberandi, hvað það eru mörg tjón þarna á ákveðnum stöðum,“ segir hún.
Markmiðið sé aðallega að minna fólk á að vera með athyglina í lagi í umferðinni og fara yfirhöfuð varlega.
Verða þessi skilti líka á ensku?
„Nei þau eru nú bara á íslensku. Við áttum hins vegar á sínum tíma þátt í að þróa Safe Travel appið, sem kom út frá Safe Travel síðunni, af því að við vinnum mjög mikið með Landsbjörgu.
Þar er okkur mikið kappsmál að ferðaþjónustufyrirtæki kynni þetta app fyrir ferðamönnum, af því að það nýtist þeim mjög vel við akstur á Íslandi, í aðstæðum sem þeir þekkja ekki, þá fá þeir tilkynningu í gegnum appið.“
„Þannig að þetta er allt spurning um hegðun, hvaða hegðun borgar sig og borgar sig ekki,“ segir Hrefna.
„Það eru þessi ljósastýrðu gatnamót sem eru oft varasöm – bara vegna þess að fólk er á meiri hraða – og á meðan það er ekki búið að setja einhverjar brýr eða breyta einhverju þarna þá eru upplýsingarnar mjög mikilvægar, að fólk viti hvar það þarf að passa sig.
Með þessari tilteknu aðgerð með skiltin byrjum við á því að vekja athygli á þessum tveimur gatnamótum – af því að þau standa út úr hvað varðar fjölda tjóna og fjölda slysa – en við höfum hug á að færa þetta út á fleiri staði. Við erum bara rétt að byrja.“