Sex karlmenn í Hrísey byrjuðu á prjónanámskeiði hjá Svanhildi Daníelsdóttur fyrir skömmu og er takmarkið að hver og einn ljúki við að prjóna lopapeysu á sig fyrir sjómannadaginn. „Það er ekki víst að það takist en við reynum,“ segir textílkennarinn, sem fór á eftirlaun fyrir áramót og vildi gefa af sér til samfélagsins á nýjan hátt.
Í hópnum eru tveir húsasmiðir, sjómaður, kennari, pípari og franskur eftirlaunamaður. Svanhildur vildi ekki hafa fleiri, því að þá hefði hún ekki getað sinnt þeim eins vel. „Þeir kunnu ekkert áður, þurftu að byrja á því að læra að halda á prjónunum, síðan að læra að fitja upp og gera slétt og brugðið,“ segir Svana.
Námskeiðið hófst 1. febrúar og síðan þá hafa prjónakarlarnir hist á hverjum laugardegi og auk þess mætt í tvo aukatíma á sunnudögum. „Þeir eru mjög áhugasamir og kappsamir,“ heldur Svana áfram. Einn hafi til dæmis fljótlega mætt með flott prjónasett. „Það varð til þess að hinir fóru og keyptu eins sett, sem er mun flottara en ég hef nokkru sinni eignast.“
Svana var textílkennari í 38 ár og þar af síðustu 16 árin í Verkmenntaskólanum á Akureyri. Hún ákvað að auglýsa námskeiðið á síðu með fréttum frá Hrísey á Facebook og þegar sex karlar á aldrinum 39 til 69 ára höfðu skráð sig hófst hún handa.
Með framtakinu vill hún vekja jákvæða athygli og sýna í verki að karlar geti prjónað ekki síður en konur. Því hafi hún í huga að þau fari um þorpið og prjóni fyrir augum annarra. „Sjálfstraust þeirra eykst með hverjum tímanum og ég er að hugsa um að hafa einn tíma við hringborðið í búðinni fyrir páska. Þá geta viðskiptavinir séð hvað karlarnir eru að gera og spurt þá spjörunum úr. Svo fáum við okkur hugsanlega kaffi með prjónunum í lauginni undir lokin með sama hugarfari.“
Lesa má nánar um málið í Morgunblaðinu í dag