Ryðja þarf heimatilbúnum hindrunum úr vegi, móta þarf skýra sýn og stefnu þegar kemur að gervigreindarbyltingunni, flýta þarf uppbyggingu virkjana og brýnt er að fylgja eftir samningum um uppbyggingu verknámsskóla um land allt.
Þetta er meðal þess sem kemur fram í ályktun Iðnþings 2025 sem samþykkt var í dag hjá Samtökum iðnaðarins.
„Lífskjör okkar byggja á sköpun verðmæta – vöru og þjónustu – og öflugum útflutningi. Forsenda þeirra er greiður aðgangur að mörkuðum. Útflutningur iðnaðar nam um 750 milljörðum króna árið 2024 og óx um 6% milli ára. Iðnaður er stærsta útflutningsgrein hagkerfisins. Stjórnvöld þurfa að róa öllum árum að því að tryggja samkeppnishæfni íslensks iðnaðar og atvinnulífs, þannig að verðmætasköpun hér á landi geti eflst og vaxið í alþjóðlegri samkeppni,“ segir í ályktuninni.
Fram kemur að til þess að tryggja samkeppnishæfni íslensks iðnaðar og atvinnulífs þá þurfi markvissar aðgerðir til að ryðja heimatilbúnum hindrunum úr vegi, einfalda regluverk og skapa hagstæð skilyrði fyrir áframhaldandi fjárfestingu í nýsköpun og uppbyggingu innviða.
Iðnþingið segir að íslensk stjórnvöld hafi mikið um það að segja hvort tækifæri verða sótt á sviði gervigreindar eða Ísland dragist aftur úr öðrum þjóðum. Stjórnvöld þurfi að móta skýra sín og stefnu þegar kemur að gervigreindarbyltingunni.
„Þetta er ekki síst mikilvægt fyrir öryggis- og varnarhagsmuni landsins. Samtök iðnaðarins hvetja stjórnvöld til þess að sækja tækifærin sem felast í stærstu iðnbyltingu síðari tíma í nánu samráði við atvinnulífið. Í breyttri heimsmynd þarf að efla styrk samfélagsins til þess að mæta fjölbreyttari ógnum, af mannavöldum eða vegna náttúruhamfara. Með öðrum orðum þarf að efla viðnámsþrótt samfélagsins,“ segir í ályktuninni.
Engin verðmæti verða til án orku og í ályktuninni segir að samkeppnishæfni Íslands endurspeglist að miklu leyti í alþjóðlega samkeppnishæfu raforkuverði.
Skortur á raforku megi rekja til kyrrstöðu í raforkuöflun sem orsakist m.a. af regluverki sem hamli uppbyggingu.
„Skortur á raforku er raunveruleg ógn við orkuskiptin, framtíðarhagvöxt, og þar með lífskjör hér á landi,“ segir í ályktuninni og þá er einnig tekið fram að raforkuverð hafi hækkað um ríflega 15% árið 2024 og meira hjá mörgum fyrirtækjum.
„Flýta þarf fyrir uppbyggingu nýrra virkjana og skerpa þarf á hlutverki ríkisins á raforkumarkaði. Tryggja þarf markaðsaðgengi nýrra lausna óháð eignarhaldi virkjunaraðila, en óeðlilegt er að áætla að fjárfestingarþörfin í raforkukerfinu sé mætt án aðkomu einkaframtaksins.“
Samtökin fagna því að hugverkaiðnaði hafi verið tryggður fyrirsjáanleiki í þrjú ár hvað varðar skattahvata vegna rannsókna og þróunar.
Hugverkaiðnaður getur orðið verðmætasta útflutningsstoðin við lok þessa áratugar að mati Samtaka Iðnaðarins en til þess þarf fyrirsjáanleika og mannauð.
Í ályktuninni er sagt uppsöfnuð viðhaldsskuld innviða nemi nú um 700 milljörðum króna og því þurfi að leita þarf fjölbreyttari leiða til þess að bæta úr. Meðal annars með því að virkja einkaframtakið í nýfjárfestingu samhliða því að tryggja nægt fjármagn til viðhalds.
„Það er óásættanlegt að 600-1.000 umsóknum um iðnnám hafi verið synjað á hverju ári, undanfarin ár en helstu flöskuhálsar eru aðstaða og fjármagn,“ segir í ályktuninni um stöðu iðnnáms.
Því er hins vegar fagnað að ríki, Hafnarfjarðarbær og Tækniskólinn hafi gert samkomulag um uppbyggingu skólans í Hafnarfirði.
„Að sama skapi er brýnt að fylgja eftir samningum um uppbyggingu verknámsskóla um land allt þannig að iðnnám fái þann sess sem samfélagið kallar eftir. Mikilvægt er að nemendaígildum fjölgi í takt við fjölgun landsmanna. Hlúa þarf að iðnmenntun og löggildingu iðngreina enda er það forsenda þess að fagþekking viðhaldist.“