Sindri Snær Birgisson hefur verið dæmdur í 18 mánaða fangelsi fyrir þátt sinn í hryðjuverkamálinu svokallaða. Ísidór Nathansson hlýtur 15 mánaða fangelsisdóm. Þeir eru aftur sýknaðir af tilraun til hryðjuverka.
Landsréttur kvað upp dóm sinn rétt í þessu og með honum eru fangelsisrefsingar beggja mannanna skertar frá lægra dómstigi.
Rétt tæplega ár er liðið frá því að Sindri var sýknaður fyrir tilraun til hryðjuverka í Héraðsdómi Reykjavíkur. Ísidór var á sama tíma sýknaður fyrir hlutdeild í broti Sindra.
Aftur á móti voru þeir dæmdir fyrir stórfellt vopnalagabrot, Sindri í 24 mánaða fangelsi og Ísidór í 18 mánaða fangelsi.
Refsingar fyrir þau brot voru skertar með dómi Landsréttar í dag.
Verjendur mannanna höfðu fyrir Landsrétti krafist þess að þeir yrðu sýknaðir alfarið af hryðjuverkahluta ákærunnar og að hluta fyrir vopnalagabrotin.
Sömuleiðis var þess krafist að þeir yrðu aðeins dæmdir til vægustu refsingar sem lög leyfa, hvað varðar þau brot sem þeir gengust við að hluta.
Sveinn Andri Sveinsson, verjandi Sindra, gagnrýndi orðalag í dómi héraðsdóms þar sem sagði að „viðurstyggileg ummæli“ beggja ákærðu og athafnir þeirra hefðu að mati dómsins gefið „fullt tilefni til aðgerða lögreglu í málinu er ákærðu voru handteknir“.
Mennirnir voru handteknir 21. september árið 2022, degi eftir að heimild til ákveðinna þvingunarúrræða var gefin út.
Í máli Karls Steinars Valssonar yfirlögregluþjóns fyrir héraðsdómi kom fram að þeir hefðu fyrst og fremst verið handteknir vegna rannsóknarhagsmuna, þar sem Ísidór hefði fengið upplýsingar um eftirlit lögreglu með þeim.
Á blaðamannafundi lögreglu daginn eftir var svo greint frá því að komið hefði verið í veg fyrir hryðjuverk.
Verjendurnir sögðu báðir fyrir Landsrétti að rannsókn lögreglu hefði miðað að fyrirfram ákveðnum kenningum og oftúlkunum, um að félagarnir væru hættulegir hryðjuverkamenn.
Grundvallarsjónarmiði um hlutlægni hefði verið „kastað út um gluggann“.
„Við sem samfélag verðum að setja mörk,“ sagði saksóknarinn Anna Barbara Andradóttir aftur á móti, þegar hún flutti málið fyrir Landsrétti.
Hún sagði það ekki vera gott fordæmi ef hægt væri að undirbúa hryðjuverk en segja það síðan vera djók án nokkurra afleiðinga.