„Hjartsláttur þessa svæðis er þannig að við erum að gera ráð fyrir tveimur flugum á dag í vélum sem eru svona af þokkalegri stærð,“ segir Sigríður Kristjánsdóttir, framkvæmdastjóri Vestfjarðastofu.
Sjálfseignastofnunin vinnur að hagsmunamálum íbúa, sveitarfélaga, stofnana og fyrirtækja á Vestfjörðum og fundaði í morgun með Eyjólfi Ármannssyni samgönguráðherra en eins og greint hefur verið frá mun Icelandair hætta að fljúga til Ísafjarðar á næsta ári.
Aðspurð segir Sigríður að lítið nýtt hafi komið upp á fundinum. Verið sé að skoða málin.
„Það þarf að hugsa þessi mál með langtímasjónarmið í huga, bæði hvað varðar atvinnulíf, ekki síst ferðaþjónustu, og síðan þennan samfélagslega vinkil að svæðin geti vaxið.“
Hún segir að skoða þurfi málið hratt.
„Fyrir bæði samfélagið, atvinnulífið og flugrekandann þá þarf að vera fyrirsjáanleiki og þetta þarf að vinnast til langs tíma. Því flugrekstur er langs tíma hugsun.“
Eru frekari fundir á döfinni?
„Við erum bara að vinna málið. Það er ekki af okkar hálfu í bili. En við höldum áfram að ýta þessu máli áfram. Eins og ég segi þá þarf að vinna þetta frekar hratt. Það dugar ekki að taka ákvarðanir næsta sumar, þessar ákvarðanir þarf að taka núna.“