Annar mannanna sem fór í sjóinn við Akraneshöfn í óveðrinu á mánudagsmorgun liggur enn á gjörgæsludeild en til stendur að vekja hann í dag.
Þetta segir Bergþór Jóhannsson, forstjóri Hagtaks, í samtali við mbl.is en mennirnir tveir sem fóru í sjóinn þegar alda hrifsaði þá með sér voru starfsmenn á vegum Hagtaks sem vinnur að því að lengja viðlegukant fyrir Faxaflóahafnir.
Maðurinn sem liggur á gjörgæsludeild var í bílnum þegar aldan hreif bílinn með sér en hinn stóð á bryggjunni en náði ekki að hlaupa undan öldunni. Hann var fluttur á heilbrigðisstofnun Vesturlands en var útskrifaður skömmu síðar. Báðir voru mennirnir að skoða aðstæður eftir óveðrið sem gekk yfir á sunnudagskvöld þegar aldan hreif þá með sér.
„Við erum í sjokki og bíðum fregna af manninum. Hugur okkar er hjá honum og fjölskyldu hans,“ segir Bergþór.
Tjón varð á hafnargarðinum í óveðrinu og þá segir Bergþór að það hafi orðið talsverðar skemmdir á tækjum og búnaði Hagtaks sem voru á staðnum og ljóst að tjónið sé umtalsvert.
Síðdegis í gær tókst að ná bílunum upp úr höfninni en Björgunarfélag Akraness, köfunarfyrirtækið Sjótækni og verktakafyrirtækið Borgarverk stóðu að aðgerðinni sem var á vegum Faxaflóahafna og tryggingafélaga.