Báðir farþegarnir í jepplingnum sem rakst á við rútu á Vesturlandi fyrr í dag voru fluttir á sjúkrahús alvarlega slasaðir. Minniháttar meiðsli voru á farþegum rútunnar.
Þetta segir Ásmundur Kristinn Ásmundsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Vesturlandi, í samtali við mbl.is.
Einn farþeginn var fluttur með þyrlu á sjúkrahús en hinn farþeginn var fluttur með sjúkrabíl. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu fyrr í dag var sagt að þrír hefðu verið í jepplingnum, en Ásmundur segir nú að þeir hafi verið tveir.
Um 20 manns voru í rútunni en Ásmundur segir að lítil meiðsli hafi verið meðal farþega.
Slysið átti sér stað á þriðja tímanum í dag við gatnamót Bröttubrekku og Þjóðvegar 1 á Vesturlandi.
Hann ítrekar að um alvarlegt slys sé að ræða sem lögreglan sé með til rannsóknar. Hann getur ekki tjáð sig um það hvort að bifreiðarnar hafi skollið saman.
Ekki verða veittar frekari upplýsingar að svo stöddu.