Fimm ungmenn voru handtekin á höfuðborgarsvæðinu í gærkvöldi fyrir rán og að hlýða ekki fyrirmælum lögreglu. Þau voru færð á lögreglustöð og látin laus að yfirheyrslu lokinni.
Þetta kemur fram í dagbók lögreglu vegna verkefna frá klukkan 17 í gær til klukkan 5 í morgun. Alls eru bókuð 85 mál í kerfum lögreglu á tímabilinu.
Þrjú ungmenn voru handtekinn í hverfi 109 fyrir rúðubrot og var haft samband við foreldra þeirra.
Tilkynnt var um líkamsárás í hveri 101 en um minni háttar meiðsli voru að ræða. Einn var handtekinn og vistaður í fangageymslu. Þá voru 20 bifreiðar í sama hverfi sektaðar vegna stöðubrota. Þá barst tilkynning til lögreglu um innbrot og þjófnað úr heimahúsi í hverfi 101. Þaðan var stolið fartölvu og gerandinn ókunnur.
Tilkynnt var um einstakling sem svaf í strætóskýli í Kópavogi. Hann var vakinn af lögreglu og hélt hann sína leið.