Verjandi Ísidórs: „Ásættanleg niðurstaða“

Einar Oddur Sigurðsson, verjandi Ísidórs Nathanssonar, og Sveinn Andri Sveinsson, …
Einar Oddur Sigurðsson, verjandi Ísidórs Nathanssonar, og Sveinn Andri Sveinsson, verjandi Sindra Snæs Birgissonar, í Landsrétti í dag. mbl.is/Árni Sæberg

Einar Oddur Sigurðsson, verjandi Ísidórs Nathanssonar, sem hlaut í dag 15 mánaða fangelsisdóm fyrir aðkomu sína að hryðjuverkamálinu, segir niðurstöðu Landsréttar ásættanlega. Umbjóðandi hans sé hins vegar ekki ánægður með framgöngu lögreglunnar í málinu.

Sindri Snær Birgisson og Ísidór Nathansson voru fyrir skömmu aftur sýknaðir af tilraun til hryðjuverka, nú fyrir Landsrétti.

Þá voru fangelsisrefsingar þeirra beggja skertar frá lægra dómstigi.

Ákæruvaldið fékk ekki framgang

„Það sem stendur náttúrulega upp úr er að þeir eru sýknaðir af hryðjuverkaákvæðinu, eins og í fyrra,“ segir Einar í samtali við mbl.is.

„Refsingin er milduð lítillega.“

Þá bendir Einar á að þeim sé einnig gert að greiða lægra hlutfall af sakarkostnaði en Héraðdómur hafði dæmt þá til að greiða í fyrra.

„Þannig að það mætti segja að ákæruvaldið hafi ekki fengið neinn framgang heldur þvert á móti með þessari áfrýjun.“

Verjendurnir fara yfir dóminn.
Verjendurnir fara yfir dóminn. mbl.is/Árni Sæberg

„Ásættanleg niðurstaða“

Ertu sáttur með niðurstöðuna?

„Já, ég held að svona fljótt á litið megi ágætlega við una,“ segir Einar og heldur áfram:

„Þrátt fyrir það er auðvitað umbjóðandi minn ekki ánægður með framgöngu lögreglunnar í málinu, eða ákæruvaldsins, allt frá upphafi, en fyrst að það var tekin ákvörðun um áfrýjun þá er þetta örugglega ásættanleg niðurstaða.“

Hver telurðu að næstu skref verði?

„Það verður auðvitað tekið til skoðunar hvort málinu verði áfrýjað til Hæstaréttar. Það verður ekki gert af okkar hálfu en umbjóðandinn minn, geri ég ráð fyrir, myndi vilja telja að það væri mál að linni, að þetta ætti að vera lokapunkturinn í málinu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert