#68. - Mega blaðamenn brjótast inn á heimili fólks?

Hvar liggja mörk friðhelgi einkalífsins og hvar tekur réttur almennings til upplýsingagjafar við? Eva Hauksdóttir, lögmaður Páls Steingrímssonar ræðir það í nýjasta þætti Spursmála. Og margt fleira er þar á dagskrá.

Þátturinn var sýndur hér á mbl.is fyrr í dag en upptöku af honum má sjá í  spilaranum hér að ofan, á Spotify og YouTube, og er hún öllum aðgengileg.

Fréttir vikunnar 

Rósa Guðbjartsdóttir, alþingismaður og fyrrum bæjarstjóri í Hafnarfirði ræðir fréttir vikunnar ásamt Birni Brynjúlfi Björnssyni, framkvæmdastjóra Viðskiptaráðs. Rósa hafði aðkomu að gerð kjarasamninga við kennara og í þættinum verður hún spurð út í meinta aðkomu Ásthildar Lóu Þórhallsdóttur, menntamálaráðherra að gerð samninganna og eins framgöngu Heiðu Bjargar Hilmisdóttur, formanns Samtaka íslenskra sveitarfélaga.

Uppákoma hjá sveitarfélögunum

Sú síðastnefnda einangraði sig frá allri stjórn samtakanna þegar hún sagðist reiðubúin fyrir hönd Reykjavíkur að ganga til samninga við kennara, jafnvel þótt öll önnur sveitarfélög landsins væru ekki til í að bjóða upp í þann dans. 

RÚV er vandinn á þröngum markaði

Björn Brynjúlfur kynnti fyrr í vikunni ásamt samstarfsfólki sínu skýrslu um fjölmiðlamarkaðinn og það hvernig Ríkisútvarpið gín yfir öðrum fyrirtækjum á þeim markaði.

Þá verður tali einnig vikið að nýjum hagræðingartillögum sem ríkisstjórnin er komin með á sitt borð. Þar er stefnt að því að spara 70 milljarða á næstu fimm árum. Það eru innan við 1% aðhaldsaðgerðir á hvert ár.

Innansveitarkronika

Í þættinum er einnig rætt við Álfhildi Leifsdóttur, sveitarstjórnarkonu í Skagafirði og framákonu í Vinstrihreyfingunni grænu framboði. Hún er afar ósátt við þær fyrirætlanir meirihlutans í sveitarfélaginu að selja tvö af tíu félagsheimilum héraðsins. Hún ræðir þau mál og stöðu VG sem virðist rústir einar eftir það afhroð sem flokkurinn galt í síðustu alþingiskosningum.

Ekki missa af spennandi samfélagsumræðu í Spursmálum hér á mbl.is alla föstudaga klukkan 14. 

Rósa Guðbjartsdóttir, Álfhildur Leifsdóttir, Eva Hauksdóttir og Björn Brynjúlfur Björnsson …
Rósa Guðbjartsdóttir, Álfhildur Leifsdóttir, Eva Hauksdóttir og Björn Brynjúlfur Björnsson eru gestir Stefáns Einars Stefánssonar í Spursmálum að þessu sinni. Samsett mynd/mbl.is/María Matthíasdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert