Bandaríkin að víkja fyrir Kína?

Donald Trump forseti hefur mikið látið að sér kveða í …
Donald Trump forseti hefur mikið látið að sér kveða í alþjóðamálum eftir að hann sór embættiseið í janúar. AFP

Dagur B. Eggertsson, alþingismaður og formaður Íslandsdeildar NATO-þingsins, segir það skapa aukið svigrúm fyrir Kínverja í alþjóðamálum ef Bandaríkin draga sig í hlé í sumum heimshlutum.

Því hefur verið haldið fram að Kínverjar séu að reyna að styrkja stöðu sína í gegnum alþjóðastofnanir og að þeir séu jafnvel að endurmóta það kerfi.

Spurður hvort hann taki undir það, og hvort það sé kannski tilefni aðgerða Trump-stjórnarinnar, þar með talið í tollamálum, segir Dagur því ekki auðsvarað.

Þvert á það sem að var stefnt

„Ég ætla ekkert að fullyrða um það. Varðandi Kína má líka velta því fyrir sér að ef Vesturlönd og Bandaríkin draga sig að einhverju leyti út úr þessum alþjóðastofnunum, út úr þróunarsamvinnu og út úr marghliða stuðningi við aðra heimshluta, að þá skilji það líka eftir býsna mikið svigrúm og sóknarfæri fyrir Kínverja, þvert á það sem að var stefnt.“  

Þú hefur verið borgarstjóri. Hvernig undirbýrðu þig fyrir utanríkismál?

„Áður en ég fór í pólitík tók ég reyndar meistarapróf í mannréttindum og alþjóðalögum frá Háskólanum í Lundi árið 2005. Alþjóðalögin og stofnanir alþjóðakerfisins voru hluti af þessu námi og það hefur nýst mér æ síðan. Ég hef því alltaf fylgst með athygli og áhuga á alþjóðamálum og alþjóðapóltík, þótt ég neiti því ekki að það hafi aukist gríðarlega að undanförnu.“

Dagur B. Eggertsson.
Dagur B. Eggertsson. mbl.is/Karítas

Átti að stuðla að friði

Hvernig er alþjóðakerfið í dag miðað við kerfið sem þú lærðir inn á?

„Stóra myndin er sú að það kerfi sem sett var á stofn í kjölfar síðari heimsstyrjaldarinnar, og var ætlað að draga lærdóm af henni og koma í veg fyrir stríð og stuðla að friði með því að setja leikreglur í samkiptum þjóða og ríkja og stofnanir til að halda utan um það, er ekki gallalaust. Það eru engu að síður margir hlutar af því góðir.

Og heimurinn er miklu friðsamlegri og betri með þessum stofnunum en án þeirra. Þar vil ég nefna kerfi Sameinuðu þjóðanna, samstarf á sviði heilsu og menntunar og Efnahags- og framfarastofnunina í París, OECD, sem var í raun búin til utan um alþjóðastofnun sem var falið að framkvæma Marshall-aðstoðina og endurreisa Vestur-Evrópu eftir stríðið,“ segir Dagur.

Þvert á það sem að var stefnt

Hann heldur áfram:

„Evrópusambandið var einnig stofnað, sem efnahagsbandalag til að tryggja og stuðla að friði og samgangi þjóða í Evrópu. Síðast en ekki síst eru það NATO og varnarbandalag Evrópu og Bandaríkjanna og Kanada sem hefur auðvitað gegnt lykilhlutverki við að tryggja frið með varnarsamstarfi.

Við Íslendingar höfum raunar verið þátttakendur í öllum þessum stofnunum frá upphafi, ef ESB er undanskilið. Við komum seint inn í Evrópusamvinnuna sem segja má að hafi verið hluti af þessu. Það sem er að gerast núna er að það er kannski meiri óvissa um einstaka þætti í hinni alþjóðlegu samvinnu en áður og ákveðnar blikur eru á lofti. Bandaríkjamenn hafa til dæmis gengið út úr Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni og ýmsir svipaðir hlutir gætu farið að gerast býsna hratt,“ segir hann.

Xi Jinping Kínaforseti.
Xi Jinping Kínaforseti. AFP

Leiðtogar Evrópu að svara kallinu

„Bandaríkjamenn hafa látið vita af því að þeir séu að skoða framtíðina innan fleiri stofnana og svo höfum við öll fylgst með umræðunni um málefni Úkraínu og þeim yfirlýsingum. Þannig að það má segja að þar sem áður var mikill fyrirsjáanleiki, skýr sýn og stefna og mikil samstaða, til dæmis innan NATO, sé nú meiri óvissa en áður og auðvitað alveg skýrt að það er gerð sú krafa að Evrópa axli meiri byrðar á vörnum,“ segir Dagur.

„Því kalli eru leiðtogar Evrópulandanna góðu heilli að svara eins og við sjáum af fjölda funda þeirra að undanförnu þar sem lagt er á ráðin um hvernig eigi að bregðast við atburðarásinni og breyttri stöðu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert