Hjörleifur Davíðsson missti hundinn sinn og besta vin, Prins, í janúar. Hann hafði óskað eftir að hundurinn færi í sér brennslu sem þýddi að Hjörleifur fengi ösku hans og loppufar í kjölfarið. Mistök áttu sér þó stað hjá Dýralæknamiðstöðinni Grafarholti og endaði hundurinn að sögn Hjörleifs „í ruslinu.“
Um er að ræða alvarleg, en þó mannleg, mistök dýraspítalans og segir Hjörleifur í samtali við mbl.is að hann hafi sjálfur þurft að leggjast í rannsóknarvinnu um hvað hafi orðið að hundinum sínum.
„Ég fékk alltaf svo óskýr svör frá Dýralæknamiðstöðinni Grafarholti, þannig að ég þurfti svolítið að draga upplýsingar upp úr öllum.“
Prins var í pössun hjá vini Hjörleifs í janúar, á meðan hann var sjálfur erlendis, en þann 15. janúar dó Prins. Daginn eftir var hann fluttur á Dýralæknamiðstöðina Grafarholti.
„Ég hafði tekið ákvörðun um að láta brenna hann og fá öskuna í ker ásamt loppufari hans. Þetta ferli átti að taka að hámarki fimm vikur,“ segir Hjörleifur.
Þann 5. mars hafði hann samband við spítalann en virtist engin svör geta fengið þaðan. Eftir töluverða bið var honum tjáð að Prins væri horfinn, án nokkurra skýringa. Um mannleg mistök væri einfaldlega að ræða og beðist var afsökunar.
Hjörleifur hringdi í alla viðkomandi aðila, brennsluna í Garðabæ, Terra og Kölku, í von um að komast að því hvar hundurinn sinn hafi endað, en lítið var um svör og fékk hann á tilfinninguna að um væri að ræða upplýsingar sem væru venjulega ekki veittar almenningi.
„Þegar ég hringdi í Terra var ég spurður frá hverjum ég væri að hringja. Ég sagðist bara vera að hringja frá sjálfum mér, hundurinn minn hafi endað hjá þeim.“
Forsvarsmaður brennslunnar í Garðabæ hafi sagt við Hjörleif að slíkt eigi ekki að geta gerst og hafi aldrei komið fyrir áður. Hjörleifur segist þó hafa fengið fjölda reynslusagna í einkaskilaboðum í kjölfar facebook færslu sinnar á Hundasamfélaginu. Er því ljóst að ekki er um einsdæmi að ræða.
„Það eru fleiri sem hafa lent í svipuðu og ég, og aðrir sem eru með slæmar sögur af þessum dýraspítala,“ segir Hjörleifur.
„Ég heyrði þá aftur í Dýralæknamiðstöðinni Grafarholti – sem heitir núna Animalía – Fyrir almenna brennslu nota þau ekki Garðabæinn, heldur kemur Terra – sem er held ég bara Sorpa – og sækir dýrin og fer með þau í Kölku sem er sorpeyðingarstöð í Reykjanesbæ.“
„Þannig að hann endaði bara í ruslinu.“
Hver er þá loka niðurstaðan í sambandi við dýraspítalann?
„Ég talaði við þær í gær og þær taka þetta á sig. Hann hefur bara farið inn í vitlausan frysti, ég veit svo sem ekki hvernig þetta er hjá þeim, ég fór ekki með hann sjálfur þangað. Eina ástæðan fyrir að hann endaði hjá þeim er út af því að hann var í pössun, annars hefði ég sjálfur alltaf farið með hann í Garðabæ, það var spítalinn okkar.“
Að sögn Hjörleifs ætlaði starfsmaður dýraspítalans að komast að því hver hefði tekið á móti Prins, en honum gruni að hún hafi gert það sjálf. Starfsfólk viti hvenær komið er inn með dýrin og ætti því ekki að vera mikið mál að athuga hver var í vinnu þann dag og hver tók á móti honum.
„Það er strax búið að útiloka tvo starfsmenn þannig að það eru ekki margir sem koma til greina. Það eru ekki margir að vinna hjá þeim,“ segir hann.
„Niðurstaðan er bara sú að þetta eru mannleg mistök og ekkert hægt að gera í því, þetta er auðvitað bara endastöðin.
Þetta er ekki eins og að panta pizzu og fá vitlaust álegg sko.“
Hjörleifi bárust margar reynslusögur í kjölfar færslu sinnar á facebook, um svipaða reynslu af Dýralæknamiðstöðinni Grafarholti.
Ein þessara reynslusagna átti sér stað fyrir þremur árum og var eigendum lofað að bætt yrði verkferla spítalans í kjölfar mistakanna.
Vert er að benda á að eðlilegt er að mannleg mistök eigi sér stað, en dýraeigendur sammælast í athugasemdum við færsluna um að nauðsynlegt sé að fara yfir verkferla spítalana. Ekki sé einfaldlega um að ræða dýrahræ heldur fjölskyldumeðlim sem sárt er saknað.
Því séu mistök á við þessi mjög sár, þegar stutt er síðan viðkomandi fjölskylda missti besta vin sinn.
Dýralæknamiðstöðin hætti starfsemi sinni 1. mars, þegar Animalía – fyrsta sólarhringsopna bráðamóttakan fyrir gæludýr – hóf starfsemi sína í húsnæðinu.
Eru það sömu starfsmenn?
„Ég spurði hvort þær hafi verið að vinna þarna áður, hún gaf mér svolítið óskýrt svar. En ég held að þær hafi verið að vinna þarna og hafi núna verið að taka við rekstrinum.
Þær sögðust ekki vita til þess að þær þyrftu að fara yfir verkferla, en það var alveg augljóst að það þyrfti að fara yfir verkferla þar sem þetta hefur gerst áður.“
Spurður hvort starfsfólk hafi kannast við að slíkt hafi komið fyrir áður segir Hjörleifur ekkert hafa verið sagt um fyrri mistök.
Blaðamaður hafði samband við Animalíu við gerð fréttarinnar og var tjáð að stjórnendur ætli ekki að „taka beinan þátt í að blása upp þessa umræðu, í formi viðtala“.
Í tilkynningu frá fyrirtækinu segir að um mistök af hálfu fyrirtækisins sé að ræða og fyrirtækið hafi beðist innilegrar afsökunar. Þetta sé erfitt mál þar sem ekki er hægt að bæta það tilfinningalega tjón sem eigendur hafa orðið fyrir nú þegar. Þá muni fyrirtækið sjá til þess að sérstaklega verði bætt úr þessu í starfsemi Animalíu.
Segir þar einnig að boðið hafi verið eiganda að „athuga hvort við ættum gamla öskju sem þau gætu þá sett eitthvað í, til minningar um dýrið“.
„Ég óska engum að vera að standa í þessu eftir að hafa misst hundinn sinn,“ segir Hjörleifur.
„Ég get ekkert sett út á þessar stelpur varðandi dýralækningar. Ég er ekki að leitast eftir að fólk fari og jarði fyrirtækið þeirra, það er ekki meiningin.“
Bætir hann þó við að hann skilji ekki hvers vegna boðið er upp á þessa þjónustu á öðrum spítölum, ef dýrin sem óskað er eftir sér brennslu fyrir endi hvort eð er í Garðabæ, „það eru svo mörg skref sem geta klikkað þarna“.
„Það væri betra að leyfa fólki að taka ákvörðun sjálft með því að upplýsa þau um ferlið, svo það sé ekki verið að flakka með hundinn þinn fram og til baka og nákvæmlega þetta gerist.
Mín fáfræði var bara þannig að ég hélt einhvern veginn að allir dýraspítalar væru með sína litlu ofna til að brenna dýrin, og þetta gæti ekki klikkað. Það er bara ekki þannig. Það þarf einhver sérstök leyfi og Garðabær er eini staðurinn á höfuðborgarsvæðinu.“
Að lokum segir Hjörleifur málið hafa fengið meiri viðbrögð en hann bjóst við.
Vonast hann innilega til þess að ráðist verði í úrbætur á þessum verkferlum á öllum dýraspítölum, en honum bárust einnig reynslusögur um misferli annars dýraspítala og er sá á Selfossi.
„Þannig að þetta er ekki bara þessi spítali.“