Bandarísk stjórnvöld hafa í gegnum tíðina sýnt því skilning að Íslendingar uppfylli ekki markmið ríkja Atlantshafsbandalagsins um útgjöld til varnarmála, segir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra.
Hún segir ekkert benda til þess að varnarsamningur ríkjanna sé ekki enn í gildi.
Í samtali við mbl.is segir Þorgerður að fulltrúar íslenskra stjórnvalda hafi rætt við Mark Rutte, framkvæmdastjóra Atlantshafsbandalagsins, og óskað eftir að hann eins og forveri hans í starfi, Jens Stoltenberg, útskýri sérstöðu Íslands fyrir Donald Trump Bandaríkjaforseta og hvers vegna við höfum ekki varið eins miklu til varnarmála og aðrar þjóðir.
Fjallað var um á mbl.is fyrr í dag hvernig Trump íhugar nú stefnubreytingu í varnarmálum sem varðar varnarsamstarf við önnur ríki Atlantshafsbandalagsins.
Bandaríkin kæmu þá mögulega ekki til varnar öðru ríki, verji það ekki þegar 2% af landsframleiðslu til varnarmála. Ísland er langt frá því að ná því marki.
„Það er ekkert sem bendir til þess að varnarsamningur á milli ríkjanna sé ekki í gildi. Hann hefur verið í gildi síðan 1951, þegar hann var undirritaður. Það hafa verið uppfærslur síðan en það eru engar vísbendingar um það af hálfu Bandaríkjamanna að þeir ætli ekki að standa við varnarsamninginn,“ segir Þorgerður og heldur áfram:
„Hitt er síðan að við þurfum að leggja meira af mörkum til varna. Við þurfum að hraða þessari vinnu við varnar- og öryggismál sem ég er búin að boða og verður í þverpólitísku samtali allra flokka auk sérfræðinga. Við þurfum að gefa út merki um að við erum að taka þessa hluti alvarlega, og það er meðal annars það sem ég hef verið að leggja áherslu á, að efla okkar tæki.“
Hún segir nauðsynlegt að efla innviði til að gæta að öryggi Íslendinga og vörnum.
„Hvort sem það er innan lögreglunnar. Með því að byggja enn frekar upp hjá landhelgisgæslunni. Við höfum verið að fá CERTIS-netöryggissveitina hingað í hús. Allt er þetta gert með það að markmiði að við erum að reyna að vinna þetta enn betur saman.“
Árið 2014 settu ríki Atlantshafsbandalagsins sér markmið um að verja 2% af vergri landsframleiðslu í varnarmál.
Útgjöld íslenska ríkisins til varnarmála hafa aukist jafnt og þétt síðustu ár, eins og sjá má í síðustu skýrslu utanríkisráðherra um utanríkis- og alþjóðamál. Íslendingar eru þó langt frá því að uppfylla þetta markmið.
Árið 2023 vörðu íslensk stjórnvöldu aðeins 0,14% af vergri landsframleiðslu í varnarmál.
Erum við örugg um að bandarísk stjórnvöld líti á það þannig að það sé í lagi að við uppfyllum ekki þetta markmið um tvö prósentin?
„Það var það síðast og til að mynda, þáverandi framkvæmdastjóri NATO, Jens Stoltenberg, útskýrði mjög vel fyrir Trump þá af hverju stæði á því að við værum svona miklu lægri í okkar framlögum og að á móti værum við að gera ýmislegt annað sem aðrar þjóðir væru kannski ekki eins mikið að gera, ekki síst út frá legu landsins,“ segir Þorgerður.
Hún ítrekar að ekki megi gleyma því að Ísland sé á áhrifasvæði Bandaríkjamanna, sem þeir telja að þurfi að passa sérstaklega upp á.
„Við höfum líka talað við Rutte, nýjan framkvæmdastjóra, og beðið hann um að halda þessum sjónarmiðum á lofti eins og forveri hans í starfi gerði. Við erum auðvitað meðvituð um það að margt geti breyst, en áður hefur verið skilningur á þessari aðstöðu okkar. En það þýðir ekki að þó skilningurinn sé til staðar að við gerum ekki neitt. Við þurfum, einfaldlega í ljósi okkar eigin hagsmunamats og okkar eigin greiningar – þá þurfum við líka að gera meira.“
Stefnum við nú að því að verja 2% í varnarmál eða erum við með annað markmið?
„Það er meðal annars hluti af því að við þurfum að hraða vinnunni á öryggis- og varnarstefnunni og fá þessa aðila, allra flokka á Alþingi auk sérfræðinga, til þess að bæði meta það hvað þarf að leggja til viðbótar í öryggis- og varnarframlög, hvað við þurfum að gera til þess að ýta undir okkar varnir, fælingarmátt og svo framvegis – hvað það er sem að við getum byggt enn frekar upp,“ segir Þorgerður.
„Við viljum verða álitnir sem verðugir bandamenn, við erum með mikla þjónustu – við erum að auka hana. Við erum öflugt gestaríki. Við erum að fá bæði Bandaríkjamenn og Evrópumenn sem sinna loftrýmisgæslu og kafbátaleit, sem er líka í þeirra þágu. Við höfum sagt það á síðustu árum að kafbátar eru velkomnir í okkar lögsögu.“
Hún segir það ekki munu standa á þessari ríkisstjórn að auka við slíka þjónustu.
„Allt svona skiptir máli,“ segir hún og nefnir í því samhengi að það spari bandarískum kafbátum mikinn kostnað að geta fengið þjónustu hér þegar þeir eru í eftirliti, í stað þess að þurfa að leita til annarra ríkja.
Hún segir nauðsynlegt að sækja fram eins og aðrar Evrópuþjóðir. Ekki sé hægt að dvelja við núverandi stöðu í varnarmálum.
„En Bandaríkin vita það alveg eins og aðrar Evrópuþjóðir innan NATO að við erum ekki með her, en við uppfyllum okkar skuldbindingar með öðrum hætti.“
Þorgerður hefur þegar átt óformleg samtöl við Pete Hegseth, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, og hefur óskað eftir samtali við utanríkisráðherrann Marco Rubio.
„Það hefur verið vinsemd að mínu mati. Ég tel að menn átti sig á að samskipti ríkjanna hafi verið góð í gegnum tíðina. Ekki síst meðal annars á fyrra kjörtímabili Trumps, þá styrktust böndin á milli þjóðanna enn frekar. Ég vona að það verði áfram.“
Eftir spennuþrunginn fund í Hvíta húsinu í síðustu viku þar sem Donald Trump Bandaríkjaforseti og J.D Vance varaforseti létu Volodimír Selenskí Úkraínuforseta heyra það, birti fjöldinn allur af evrópskum leiðtogum stuðningsyfirlýsingar við Úkraínu á samfélagsmiðlum, þar á meðal Þorgerður og Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra.
Spurð hvort hún telji að íslenskir stjórnmálamenn þurfi að gæta varfærnis, þegar kemur að yfirlýsingum í garð Bandaríkjanna í ljósi varnarsamnings okkar, svarar Þorgerður:
„Jú, ég held að við þurfum vissulega að tala varlega en við þurfum líka að vera alveg skýr með stuðningi okkar við Úkraínu. Það er alveg ljóst.“
Hún segir það alveg ljóst að það sé Rússland sem hafi ráðist inn í Úkraínu.
„Við stöndum með Úkraínu, við Íslendingar.“
Hún segir Íslendinga eiga allt undir því að alþjóðalög séu virt.
„En um leið, þegar kemur að Bandaríkjunum, þá vil ég undirstrika að hagsmunagæsla gagnvart Bandaríkjunum er meginverkefni sendiráðs Íslands í Washington. Þar eru auðvitað öryggis- og varnarmál, viðskipta- og efnahagsmál – það eru burðarliðirnir í starfi sendiráðsins.
Það er mikil áhersla hjá sendiherranum og fólkinu okkar úti á að rækta samskipti og tengslin við bandaríska þingmenn, sama hvort þeir séu fulltrúa- eða öldungadeildarþingmenn, eða fulltrúar stjórnvalda – stjórnsýslan, áhrifafólk eða hugveitur.“