Gagnrýna illa ígrunduð vinnubrögð meirihlutans

Oddvitar nýs borgarmeirihluta.
Oddvitar nýs borgarmeirihluta. mbl.is/Eyþór

Frá­far­andi íbúaráð Grafar­vogs hitt­ist í vik­unni og fór yfir stöðuna í ljósi ákvörðunar nýs borg­ar­meiri­hluta að leggja niður íbúaráðin í Reykja­vík.

Full­trú­ar íbúaráðsins geta ekki orða bund­ist og lýsa yfir undr­un sinni með ákvörðun­ina, að því er seg­ir í til­kynn­ingu frá ráðinu.

„Flest­ir full­trú­ar í íbúaráði Grafar­vogs heyrðu fyrst af þess­ari ákvörðun í fjöl­miðlum, sem sýn­ir hvað vinnu­brögðin voru hroðvirkn­is­leg og illa ígrunduð,“ seg­ir í til­kynn­ing­unni.

Er þar tekið fram að íbúaráðin hafi verið hluti af auknu íbúa­lýðræði og mik­il­væg­ur tengiliður á milli borg­ar­stjórn­ar og emb­ætt­is­manna borg­ar­inn­ar.

„En með því að leggja íbúaráð niður er búið að slíta á þessi form­legu og óform­legu tengsl og ákveðin óvissa skap­ast því eng­inn veit hvað tek­ur við eða hvenær nýtt fyr­ir­komu­lag verður kynnt til sög­unn­ar.“

Tel­ur íbúaráðið það vera veru­leg mis­tök að leggja ráðið niður án alls sam­ráðs eða sam­tals. Enn frem­ur tel­ur ráðið að ekk­ert sam­bæri­legt fyr­ir­komu­lag verði komið í gagnið á nú­ver­andi kjör­tíma­bili.

Tala fyr­ir íbúa­lýðræði en leggja niður íbúaráð

„Það skýt­ur skökku við að í nú­ver­andi meiri­hluta eru flokk­ar sem hafa á liðnum árum talað mikið um aukið íbúa­lýðræði og að stytta boðleiðir. Að bera á borð sparnað og nefna laun ráðsmanna því til stuðnings er hálf hjákát­legt og gleym­um því ekki að lýðræði kost­ar.

Láta það svo vera sitt fyrsta verk að leggja niður íbúaráðin, leggja þau niður án þess svo mikið sem að ræða það við for­menn eða aðra meðlimi ráðanna,“ seg­ir í til­kynn­ing­unni.

Kem­ur þar fram að það sé grund­vall­ar­atriði í stjórn­sýslu að til­lög­ur um stjórn­kerf­is­breyt­ing­ar hljóti vandaða málsmeðferð og seg­ir að borg­ar­meiri­hlut­inn hafi ekki farið eft­ir því.

Kveðið sé á um ríka sam­ráðsskyldu gagn­vart þeim sem breyt­ing­ar varða áður en ákv­arðanir á borð við að leggja íbúaráðin séu tekn­ar.

Einnig eigi ákv­arðanir sem þess­ar að vera kynnt­ar með nægi­leg­um fyr­ir­vara.

Lítt og illa rök­studd­ar breyt­ing­ar

„Breyt­ing­arn­ar voru kynnt­ar með sól­ar­hrings­fyr­ir­vara og knún­ar í gegn á borg­ar­stjórn­ar­fundi og án þess að íbúaráðin fengju nokk­urt tæki­færi til at­huga­semda. Breyt­ing­arn­ar voru lítt og illa rök­studd­ar og ekk­ert hef­ur komið fram um hvað eigi að koma í stað íbúaráðanna,“ seg­ir í til­kynn­ing­unni.

Full­kom­in óvissa ríki um það hvað verður um þau verk­efni sem voru á borði íbúaráðs Grafar­vogs þegar það var lagt niður.

„Íbúaráð Grafar­vogs harm­ar svona vinnu­brögð og ósk­ar eft­ir því að þessi ákvörðun verði end­ur­skoðuð sem allra fyrst svo ekki mynd­ist rof á milli borg­ar­inn­ar og íbúa.“

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert