Spennitreyjan sem fylgir bið eftir leikskólaplási

Björg Magnúsdóttir vekur athygli á erfiðum aðstæðum foreldra með börn …
Björg Magnúsdóttir vekur athygli á erfiðum aðstæðum foreldra með börn á leikskólaaldri í Reykjavík. mbl.is/Kristinn Magnússon

Björg Magnúsdóttir, fyrrverandi aðstoðarmaður borgarstjóra, Einars Þorsteinssonar, á ekki von á því að sonur hennar fái leikskólapláss fyrr en næsta haust þegar hann verður orðinn 33 mánaða gamall.

Björg lýsir erfiðum aðstæðum foreldra með börn á leikskólaaldri í Reykjavík í færslu á Facebook-síðu hennar.

Segir hún að í borginni sé meðalaldur við inntöku í leikskóla nú 22 mánuðir.

„Það hljómar vel, að börn komist inn rétt fyrir tveggja ára aldur. Á góðu dögunum samgleðst ég innilega þeim heppnu fjölskyldum sem fá pláss á þeim tíma.

Staðan hérna megin er hins vegar sú að litli prinsinn okkar, sem er orðinn 27 mánaða, er ekki kominn með leikskólapláss og samkvæmt útreikningum Völu [umsóknarvefs Reykjavíkurborgar um leikskólapláss] er hann númer 25 í röðinni í leikskólann sem við völdum í fyrsta val. Staðan er enn verri í öðru og þriðja vali en þar er hann númer 31 og 54,“ skrifar Björg.

Segir hún að það spili þó inn í að á heimili hennar komi ekki til greina að koma drengnum fyrir á leikskóla í öðru hverfi en þar sem þau búa.

Margir foreldrar í svipaðri stöðu

„Í þessari viku hef ég rætt við marga foreldra í borginni í svipaðri stöðu og flest okkar kannast við spennitreyjuna sem fylgir biðinni,“ skrifar Björg.

Minnist hún á móður sem reyni að fá uppáskrifað að barnið hennar sé með bráðaofnæmi, það sé ein leið til að fá forgang inn á leikskóla.

„Aðrir foreldrar eiga í daglegu rifrildi um hvort þeirra á að stytta sinn dag og sækja barnið til dagmömmu í Kópavogi sem lokar klukkan 14. Þriðja parið flutti út í sveit þegar frúin hafði pissað á prik og það fjórða flutti til Garðabæjar þegar barnið fæddist.“

Allra leiða leitað

Nefnir Björg að Dagur B. Eggertsson hafi sagt að hann hefði viljað ná meiri árangri í leikskólamálum í borgarstjórnartíð sinni. 

Einar Þorsteinsson hafi lagt mikla áherslu á málaflokkinn þegar hann tók við embættinu af Degi. 

Lykilhópur starfsfólks og stjórnmálamanna hafi leitað allra leiða og lausna til að fjölga plássum.

Meðal annars hafi verið vilji til að hefja samtal við vinnumarkaðinn um „annað form á rekstri daggæslu og leikskóla en á vegum borgarinnar“.

Nefnir hún Hjallastefnuna og Félagsstofnun stúdenta sem hafi gengið vel í að reka slíka þjónustu.

Borginni gangi ekki vel að brúa bilið

Björg segir staðreyndirnar tala sínu máli. Borginni gangi ekkert sérstaklega vel með að brúa bilið á milli fæðingarorlofs og vinnu.

„[M]ér finnst pólitíkusar skulda okkur foreldrum það að vera raunsæ og heiðarleg en í nýjum meirihluta sitja flokkar sem settu fram leikskóla frá 12 mánaða aldri sem kosningaloforð. Það er í besta falli jákvæðni en líklega frekar óraunsætt loforð sem er til þess fallið að skapa falskar væntingar og enn meiri vonbrigði þegar planið gengur ekki upp. Okkar strákur kemst í fyrsta lagi - og vonandi inn næsta haust - þá 33ja mánaða. Í mínum bókum er ansi langt bil á milli 12 og 33,“ skrifar Björg.

Hvetur hún nýja borgarstjórn til þess að setja leikskólamálin í alvörunni í forgang og til þess að leita allra leiða til þess að ná árangri fyrir fjölskyldurnar og börnin í borginni.

„[E]f við erum alveg heiðarlegar þá vitum við að til þess þarf meira en spretthóp og góðan vilja.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka