Þórarinn Hjartarson, hlaðvarpsstjórnandi Einnar pælingar, segir að það sé ekki áhyggjuefni að hlaðvörpum sé ekki ritstýrt.
Í nýjasta þætti Dagmála ræðir Þórarinn um hlaðvörp og stöðu þeirra í samfélaginu. Spurður hvort að samsæriskenningar fái ekki að grassera í hlaðvörpum og hvort að það sé ekki galli að engin ritstjórn sé á þeim segir Þórarinn:
„Nei, bara alls ekki. Cristopher Hitchens sagði nú einhvern tímann að samsæriskenningarsmiðir væru einhvers konar lýðræðissinnar sem væru að [...] ná bullinu frá sannleikanum. Ég held að þetta sé alveg fyrir hendi líka. Ég tel aldrei að stýring á umræðu sé að fara hafa jákvæð áhrif. Bæði er það ekki hægt og hins vegar væri það líka vont,“ segir Þórarinn.
Hann segir að í Covid-faraldrinum hafi borið á því að fólk vildi stjórna umræðunni sem hann segir hættulegt.
Frekar vill hann að fólki sé frjálst að tjá sig og segir hann mikilvægt að treysta fólki fyrir upplýsingum.
„Ég tek rosalega mikið í pól Sam Harris og Cristopher Hitchens um að andstæðan við vondar skoðanir er meiri umræða,“ segir Þórarinn.
Áskrifendur Morgunblaðsins geta horft á þáttinn í heild sinni með því að smella hér.