Landsréttur hefur dæmt karlmann í tveggja ára fangelsi fyrir nauðgun sem átti sér stað árið 2019. Maðurinn hafði verið sýknaður í héraði.
Fram kemur í dómi Landsréttar að 21 mánuður dómsins sé bundinn skilorði.
Í málinu var manninum, Ívari Gísla Vignissyni, gefin að sök nauðgun með því að hafa aðfaranótt sunnudagsins 14. júlí 2019, á heimili sínu, haft samræði og önnur kynferðismök við konu án hennar samþykkis. Hann var sakaður um að hafa notfært sér að hún gat ekki spornað við verknaðinum sökum áhrifa áfengis og svefndrunga og beitt hana ólögmætri nauðung með því að nýta sér yfirburði sína og traust hennar til hans. Hann hafði m.a. samræði við konuna gegn hennar vilja.
Gegn eindreginni neitun Ívars taldi héraðsdómur ekki sannað að hann hefði gerst sekur um þá háttsemi sem í ákæru greindi og var hann því sýknaður í janúar í fyrra.
Landsréttur taldi hins vegar framburð konunnar mun trúverðugri en framburð Ívars, að hann væri stöðugur og skýr um þau atriði sem máli skiptu og fengi nægilegan stuðning í öðrum gögnum til að hann yrði lagður til grundvallar sakfellingu.
Taldi rétturinn því hafið yfir skynsamlegan vafa að Ívar hefði gerst sekur um þá háttsemi sem greindi í ákæru, að því frátöldu að hann var sýknaður af því að hafa stungið fingri inn í leggöng konunnar.
Við ákvörðun refsingar var m.a. horft til þess verulega dráttar sem orðið hafði á meðferð málsins.
Var því refsing Ívars ákveðin fangelsi í tvö ár en hluti hennar bundinn almennu skilorði sem fyrr segir. Þá var hann dæmdur til að greiða 3,5 milljónir í sakarkostnað og 2,6 milljónir í áfrýjunarkostnað.